Meira en 500 manns sendu tölvupóst á Fréttablaðið, sem sagði fyrirtækið Þyrluspaðann bjóða upp á mjög ódýrar þyrluferðir að eldgosinu í Geldingadölum. Um aprílgabb var að ræða af hálfu Fréttablaðsins sem heldur í þá áratugagömlu hefð að birta eitt slíkt í tilefni 1. apríl.
Eflaust hafa margir hlaupið yfir þröskuldinn í átt að tölvunni til að reyna að verða sér út um þyrluferð en gabbið var gert með þáttöku Þórarins Ævarssonar, eiganda pítsustaðarins Spaðans og fyrrverandi framkvæmdastjóra Ikea.

Fréttablaðið þakkar honum kærlega fyrir að taka þátt í gabbinu með blaðinu sem gert var með fullri vitund hans.
Djöfuls rasshaus er maður - gott gabb
„Ég væri svo sannarlega til í að fara með einhverjum vel völdum í þyrluferð með þessum snillingum. 🥰🥰🥰 Gangi ykkur sem allra best með þetta nýja magnaða tækifæri fyrir okkur hin ❤️“ skrifaði einn áhugasamur lesandi Fréttablaðsins í tölvupósti.
„Auðvitað djöfuls rasshaus er maður - gott gabb 👏👏👏👏👏,“ skrifaði annar er hann áttaði sig á því að um aprílgabb var að ræða.
Vert er að benda á að nokkrar þyrluþjónustur halda í raun úti þyrluflugi yfir gosstöðvarnar fyrir áhugasama.