Mótmæli til stuðnings rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny hófust á ný í Rússlandi í morgun. Nærri 500 manns hafa verið handteknir í dag víðs vegar um landið vegna mótmælanna. BBC greinir frá.

Lögreglan í Moskvu hefur lokað neðanjarðalestarstöðvum og takmarkað samgöngur í miðbænum. Í höfuðborginni eru um 100 manns í haldi lögreglunnar.

Navalny var handtekinn við komuna til Rússlands um miðjan janúar. Hann sneri aftur aftur heim fimm mánuðum eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok í heimalandinu en hann hafði dvalið á sjúkrahúsi í Þýskalandi.

Hann er einn helsti leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar og hefur löngum verið gagnrýninn á Vladimír Pútín Rússlandsforseta og er talið að menn á vegum forsetans hafi reynt að koma honum fyrir kattarnef.

Með því að fara til Þýskalands á Navalny að hafa brotið gegn skilorðsdómi sem rann út í lok síðasta árs

Yfirvöld í Moskvu hafa greint frá því að um 300 manns hafi komið saman í borginni í dag vegna mótmælanna. Þá fara mótmæli til stuðnings Navalny einnig fram á fleiri stöðum. Í borginni Novosibirsk í Síberíu gengu að minnsta kosti 2.000 manns í gegnum borgina og hrópuðu „Frelsi“ og „Pútín er þjófur“.

Mótmæli fóru einnig fram í borginni Jakútsk í dag en þar fór frost niður í 40 stig.

Mótmæli hafa verið fram víða um Rússland í vikunni en samkvæmt BBC hafa 519 manns verið handteknir vegna mótmælanna í vikunni sem er að líða og 4 þúsund manns voru handteknir í vikunni þar áður.

Bandamenn Navalny hafa verið í haldi lögreglu síðan í síðustu viku. Meðal þeirra er bróðir Navalnys og Pussy Riot aðgerðarsinninn, Maria Alyokhina.