Miklir skógareldar geisa nú á Evia, næst stærstu eyju Grikklands, og eyðileggja þar einstakan og ósnertan furuskóg. Hundruð manna hafa flúið þorpin sem eru nærri skóginum síðan að eldurinn braust út í gær.

„Þetta er algjör hörmung fyrir náttúruna,“ sagði sveitarstjóri svæðisins Kostas Bakoyannis í samtali við erlenda fjölmiðla. Fleiri en tvö hundruð slökkviliðsmenn hafa starfað á svæðinu og reyna að slökkva skógareldinn ásamt 75 slökkviliðsbílum, níu þyrlum og sjö flugvélum.

Hundruð manna hafa flúið þorpin á eyjunni.
AFP

Bæði Ítalía og Spánn hafa boðist til að senda fleiri flugvélar og þyrlur á svæðið til að bera vatn á eldinn. Skógareldar brutust einnig út á eyjunni Thassos, Pelópsskaga og svæði sem nefnist Viotia. Reykur liggur nú yfir Aþenu, höfuðborg Grikklands, sem er í um 110 kílómetra fjarlægð frá eyjunni.

Níu þyrlur og sjö flugvélar bera vatn á skóginn.
AFP

Hitabylgja hefur riðið yfir svæðið og skógarnir verið afar þurrir af þeim sökum. Um helgina náði hitinn á svæðinu 40 gráðum og þá hefur verið mjög hvasst og eldurinn því borist hratt út. Nýkjörinn forsætisráðherra landsins, Kyriakos Mitsotakis, hefur hætt við að fara í sumarfrí sitt vegna eldanna.

Í fyrra brutust miklir skógareldar út í furuskógunum í kringum Aþenu og létu 100 manns lífið í þeim. Engum hefur orðið meint af í dag og virðast slökkviliðsmenn með ótrúlegum hætti vera að ná betri stjórn á eldinum samkvæmt sveitarstjóranum Bakoyannis.

Frétt BBC um málið.

Í fyrra létust 100 manns í skógareldum sem brutust út í kringum höfuðborgina.
AFP
Eldurinn braust út í gær.
AFP
Rúmlega tvö hundruð slökkviliðsmenn eru við störf á svæðinu.
AFP