Um 500 af 1.800 skráðum ferðaþjónustufyrirtækjum á landinu munu áfram þurfa á frystingu lána að halda innan íslensku viðskiptabankanna, eða annars konar frestun á greiðslum, þó mismikið, innan veggja Arion banka, Íslandsbanka, Kviku og Landsbankans.

Heimildir innan ferðaþjónustunnar herma að bankarnir muni áfram sýna biðlund í þessum efnum, enda hafi ferðaþjónustusumarið sem er að kveðja verið undir væntingum í fjölda ferðamanna að utan, en um 300 þúsund túristar komu til Íslands í sumar, töluvert færri en vonast hafði verið eftir. Sömu heimildir segja aftur á móti að hver og einn ferðamaður af þeim sem þó komu hafi varið meiri fjármunum í landinu en almennt hefur tíðkast hingað til.

Erfiður vetur framundan

Innan bankakerfisins er fullyrt að minnst helmingur ferðaþjónustufyrirtækjanna, sem hafa verið með lán sín í frystingu, muni þurfa á því að halda vel fram á næsta ár, en veturinn verði mörgum þeirra erfiður, ef ekki ómögulegur, þar sem háönnin í sumar hafi ekki skilað þeim meiri tekjum en sem nemur rekstrartekjunum; aðföngum, leigu og launum fram eftir vetri.

Mörg þessara fyrirtækja lendi svo í illviðráðanlegum vanda þegar sex mánaða úrræði Vinnumálastofnunar lýkur um áramót, en þá þurfi þau sjálf að standa full skil á launagreiðslum – og hætt sé við að stór eða stærstur hluti þeirra 6.500 manna sem hafi verið í launaskjóli þess opinbera fari þá aftur á atvinnuleysisbætur.