Tæplega sex hundruð fjölskyldur og einstaklingar á Stór-Reykjavíkursvæðinu hafa sótt um matargjafir til Fjölskylduhjálpar Íslands í vikunni. Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar, segir að að baki þessum umsóknum séu 1.450 einstaklingar, þar með talinn fjöldi barna. Á tímabilinu frá 15. mars til 1. júlí á þessu ári afgreiddi Fjölskylduhjálp Íslands matargjafir til tæplega tvö þúsund heimila sem telja 3.446 einstaklinga.

Þá fengu 888 heimili í Reykjanesbæ afgreiddar matargjafir frá miðjum apríl fram til júlí á þessu ári og sjö hundruð heimili í júlí og ágúst. Að baki þessum heimilum voru rúmlega 400 börn.

Vegna COVID-19 fara matarúthlutanir Fjölskylduhjálpar fram með breyttu sniði. Þeir sem þurfa á hjálpinni að halda sækja um á vef Fjölskylduhjálpar og segir Ásgerður að úthlutunin sjálf muni fara fram alla vikuna og fram í þá næstu.