Með nýjum reglum á landamærum sem taka gildi í dag er öllum farþegum sem koma hingað til lands frá skilgreindum áhættusvæðum skylt að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi á milli fyrri og seinni sýnatöku.

Enn er öllum farþegum skylt að fara í sýnatöku við komuna til landsins og í aðra sýnatöku fimm dögum síðar. Á milli sýnataka er farþegum skylt að vera í sóttkví. Þá skulu einnig allir farþegar sýna neikvætt PCR-vottorð áður en þeir stíga um borð í flugvél eða skip á leið til landsins og einnig við komuna, prófið má ekki verða eldra en 72 klukkustunda gamalt.

Í dag er von á þremur vélum frá skilgreindum áhættusvæðum hingað til lands og segist Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, búast við hundruðum manna í farsóttarhús. Frá því í febrúar á síðasta ári hefur verið rekið farsóttarhús á Rauðarárstíg í húsnæði Íslandshótela. Í dag var Fosshótel Reykjavík í Þórunnartúni tekið í notkun undir slíka starfsemi en það er einnig í eigu Íslandshótela.

„Við sendum út verðfyrirspurnir til hótela ásamt fyrirspurnum um hversu mörg herbergi hótelin gætu útvegað,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

María segir Íslandshótel hafa boðið lægsta kostnað við heildarlausnina og uppfyllt kröfur Rauða krossins og almannavarna.

„Við vorum að leita að rýmum þar sem ekki er í gangi önnur starfsemi og aðrir gestir og svo var litið á heildarkostnaðinn,“ segir María. „Þá er litið til kostnaðar við að setja upp þjónustuna, mönnun og reksturinn.“

Spurð um verðið sem náðist með samningi við Íslandshótel segir María það verulega undir markaðsverði. „Frá og með 11. apríl munu svo íbúar greiða tíu þúsund krónur fyrir nóttina og kostnaður hins opinbera er háður nýtingunni,“ útskýrir María.

Með breyttum reglum mun fjöldi þeirra sem dveljast í farsóttarhúsi aukast og þar af leiðandi er nauðsynlegt að bæta við starfsfólki í húsin. Gylfi segir vel hafa gengið að manna lausar stöður.

„Ég er að reyna að ráða þá 20-30 sem eftir standa en þeir verða vonandi ráðnir í dag eða á morgun,“ sagði Gylfi við Fréttablaðið í gær.

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttahúsa Rauða krossins. Fréttablaðið/Stefán

Þá segir Gylfi að starfinu fylgi alltaf einhver áhætta en að öllu starfsfólki sé kynnt starfsemin vel, ekki sé hægt að lofa þeim bólusetningu en þeir sem starfað hafa á Rauðarárstígnum og hann sjálfur hafa nú þegar verið bólusettir.

Gylfi hefur staðið vaktina í farsóttarhúsinu frá því að það var opnað fyrir rúmu ári síðan og segist hann ekki sjá fram á að að taka sér páskafrí í ár.

„Ég tók mér ekki jólafrí og ekki páskafrí síðustu páska en það er bara þannig að þegar ríkisstjórnin segir að það verði að gera eitthvað þá bara gerir maður það.“