Hátt í 200 ungmenni munu keppa á hátíðinni Mín framtíð – Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöll. Um er að ræða hátíð sem byrjar í dag og stendur fram á laugardag.

Sigurvegarar í keppninni eiga margir hverjir kost á að keppa síðar við þá bestu í sinni grein á Evrópumóti í Graz í Austurríki á næsta ári. Einnig verða tvær iðngreinar til viðbótar með sýningu á sínu fagi.

Samhliða Íslandsmótinu er hátíðin kynning fyrir grunnskólanema á námsframboði á framhaldsskólastigi. Alls verður tekið á móti rúmlega 7.200 grunnskólanemum af öllu landinu sem munu fylgjast með keppninni ásamt því að fá að prófa fjölbreytt verkefni undir handleiðslu fagfólks. Má þar nefna að helluleggja, setja saman smárásir, sá kryddjurtum, líma upp flísar, sjóða, prófa ýmis verkfæri og tól, flétta og blása hár, splæsa net og leysa ýmsar þrautir.

„Markmiðið með þessu er að kynna fyrir ungu fólki möguleikann á störfum og möguleika á námi áður en þau velja nám í framhaldsskóla,“ segir Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Íslandsmóts iðn- og verkgreina. Fjölmörg tækifæri felist í iðn- og verk- og tækninámi og með markvissu námsvali sé hægt að draga úr brotthvarfi úr námi sem er stórt vandamál hér á landi. „Við erum því að segja við krakkana, veljið nám, ekki velja skóla.“