Ekki liggur fyrir með hvaða hætti farið verður með rúmlega þrjú hundruð dóma Landsréttar sem dæmdir voru af þeim fjórum dómurum sem Landsréttarmálið tekur til, fari svo að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) staðfesti dóm réttarins frá mars 2019. Dómur verður kveðinn upp í yfirdeild dómsins 1. desember.

Þótt málaferli vegna skipunar dómaranna hafi farið strax af stað í kjölfar skipunarinnar tóku dómararnir fjórir fullan þátt í störfum dómsins frá skipun þeirra 1. janúar 2018 og þar til dómur MDE féll 13. mars 2019. Á umræddu tímabili kváðu dómararnir fjórir upp yfir 500 dóma og úrskurði. Í flestum tilvikum er um úrskurði að ræða en einkamálin sem þeir tóku þátt í að dæma voru 120.

Sakamálin sem umræddir fjórir dómarar dæmdu voru 85 talsins sem er rúmlega helmingur allra sakamála sem dæmd voru í Landsrétti árin 2018 og 2019 en þau voru 159 á umræddu tímabili.

Vegna óvissu um aðfarar- og fullnustuhæfi allra þessara dóma má gera ráð fyrir að einhverjir freisti þess að leita til Hæstaréttar og óski eftir því að dómum verði vísað aftur til Landsréttar til nýrrar meðferðar. Sú leið gæti þó reynst torsótt vegna áfrýjunarfrests sem þegar er liðinn. Þá gæti einhver fjöldi beiðna borist endurupptökunefnd en sakfellt var í 75 af þeim 85 sakamálum sem um ræðir og ljóst að þegar er búið að fullnægja fjölda þeirra dóma.