Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs og áður hjá Siðmennt, gaf blóð í hundraðasta skiptið í gær.

Bjarni gaf fyrst blóð árið 1978 en þá var hann nemi í Iðnskólanum. Að sögn Bjarna hefur blóðgjöf verið samfélagsverkefni hans allar götur síðan og hvetur hann aðra til þess að gera slíkt hið sama.

Fyrir sex árum setti Bjarni sér það markmið að ná hundrað skiptum á sextugsafmælinu sínu og það stóðst upp á dag. Hann fékk góðar móttökur í Blóðbankanum og var leystur út með bókagjöf fyrir framlag sitt.

Í hverri blóðgjöf eru teknir 450 millilítrar af blóði, eða um 10 prósent af heildarmagni blóðs í líkamanum. Bjarni hefur því gefið 45 lítra af blóði á rúmum 40 árum.

Bjarni er búinn að setja sér frekara markmið. „Að minnsta kosti 30 skipti í viðbót fyrir sjötugsafmælið,“ segir hann.