Jaðarlistahátíðin Reykjavík Fringe fer af stað í annað sinn þann 29. júní og er til 6. júlí. Þá munu listamenn frá 25 löndum sýna listir sínar á rúmlega 17 stöðum í Reykjavík. Allt að 100 sýningar verða í boði og er eitthvað fyrir alla; leiklist, dans, söngur, myndlist, ljósmyndasýningar, drag og kabarett. Þetta er annað árið sem hátíðin er haldin og er hún tvöfalt stærri en hún var í fyrra.

Opnunarsýningin á Reykjavík Fringe verður innsetningarverk eftir Báru Halldórsdóttur en hún mun vera í búri á Listastofunni og vera til sýnis. Nanna hvetur alla stjórnmálamenn til að mæta á þá sýningu en það verður frítt inn.

Sunnudag næstkomandi verður skrúðganga klukkan 18 frá Hlemmi Square niður að Tjarnarbíó, svo byrjar forsýningarkvöldið í Tjarnarbíó klukkan 19:30.

Eitthvað fyrir alla á Reykjavík Fringe að sögn Nönnu.

„Þetta er svolítið eins og ef menningarnótt og off-venue Airwaves myndu eignast barn,“ segir Nanna Gunnars, listrænn stjórnandi Reykjavík Fringe, í samtali við Fréttablaðið.

Nanna hefur stimplað sig inn í leikhússenu Íslands sem einn af helstu brautryðjendum í sjálfstæðu leikhússenunni. Hún stofnaði meðal annars Rauða Skáldahúsið, sem er blanda af ljóðakvöldi, „immersive“ leik­húsi og kaba­rett, þar sem ljóðskáld selja gest­um einka­lestra í ná­inni um­gjörð. Hún er einnig framleiðandi hjá Huldufugli ásamt Owen Hindley.

Nanna er lærður leikari og leikhúsfræðingur frá einum virtasta leiklistarskóla Bretlands, Rose Bruford College of Theatre and Performance.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vefsíðu Reykjavík Fringe.