Neytendastofa hefur sektað félagið CBD ehf., sem rekur vefsíðuna atomos.is, um hundrað þúsund krónur fyrir fullyrðingar um lyfjavirkni CBD í snyrtivörum félagsins.

Forsvarsmenn félagsins neituðu sök í fyrstu og sendu nokkrar erlendar greinar á Neytendastofu sem þeir töldu sanna fullyrðingar sínar. Seinna fjarlægðu þeir umræddar fullyrðingar af vefsíðu sinni, sögðust ekki vera lögfróðir og reyndu að leita sátta, sem Neytendastofa hafnaði.

Hægt væri að nota vörurnar sem rafrettuvökva

Málið má rekja til 25. júlí 2021 þegar Neytendastofu barst ábending frá Umhverfisstofnun vegna fullyrðinga á vefsíðunni um virkni og notkunarmöguleikum snyrtivara sem auglýstar voru á vefsíðunni.

Á vefsíðunni mátti finna upplýsingar um að Atomos væri vörumerki sem sérhæfði sig í snyrtivörum sem innihaldi CBD. Umhverfisstofnun gerði athugasemd um að þrátt fyrir að vörur félagsins væru tilgreindar sem snyrtivörur væri að finna fjölmargar tilvísanir og upplýsingar um aðra notkunarmöguleika CBD vara á vefsíðu félagsins.

Gefið var til kynna á vefsíðunni að hægt væri að nota vörurnar sem rafrettuvökva.
Fréttablaðið/Getty

Sem dæmi var gefið til kynna á vefsíðunni að hægt væri að nota vörurnar sem fæðubótarefni, rafrettuvökva og til reykinga ásamt því að gefið væri til kynna að vörurnar hafi ákveðna lyfjavirkni. Fjölmargar umsagnir væri á vefsíðunni um einstakar vörur notaðar til inntöku og þá sem lyf eða fæðubótarefni.

CBD væri gagnlegt við meðhöndlun hjartasjúkdóma

Á vefsíðu félagsins kom eftirfarandi texti fram:

„Samkvæmt National Institute of Health, gæti meðferð á endókannabínóíðkerfinu með utanaðkomandi kannabisefnum eins og CBD verið gagnlegt við meðhöndlun á ýmsum læknisfræðilegum kvillum, þ.m.t.“

Á eftir textanum séu taldir upp þeir sjúkdómar og kvillar sem vísað sé til en samkvæmt vefsíðu félagsins gæti CBD verið gagnleg meðhöndlun við: Sársauka, flogaveiki, MS, Amytrophic Lateral Sclerosis (ALS), Parkinson, bólgu, unglingabólur, Dyskinesia, Psoriasis, brotin bein, Mad Cow Disease, þunglyndi, bakteríusýkingu, sykursýki, liðagigt, ógleði, kvíða, ADHD, geðklofa, misnotkun/afturköllun efna, hjartasjúkdómum, Irritable Bowel Syndrome (IBS).

Fyrirtækið selur ýmsar vörur sem innihalda CBD. Félagið taldi sig ekki hafa villt um fyrir neytendum með auglýsingu og sendi Neytandastofnu greinar af heimasíðu rannsóknarstofnunarinnar National Institutes of Health sér til stuðnings.
Fréttablaðið/Óttar Geirsson

Var fyrirtækið grunað um brjóta gegn eftirfarandi ákæðum í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og efnalögum.

  • Fullyrðingar sem fram koma í auglýsingum eða með öðrum hætti þarf fyrirtæki að geta fært sönnur á.
  • Viðskiptahættir eru óréttmætir ef þeir brjóta í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum og raska verulega eða eru líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda. Viðskiptahættir sem brjóta í bága við ákvæði kafla þessa eru alltaf óréttmætir.
  • Viðskiptahættir eru villandi ef þeir eru líklegir til að blekkja neytendur eða eru með þeim hætti að neytendum eru veittar rangar upplýsingar í þeim tilgangi að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um viðskipti. Hér er átt við rangar upplýsingar um helstu einkenni vöru eða þjónustu, t.d. notkun, samsetningu eða árangur sem vænta má af notkun hennar.
  • Óheimilt er að villa um fyrir neytendum með auglýsingu, öðrum svipuðum viðskiptaaðferðum og framsetningu efna og efnablandna.
  • Óheimilt er að fullyrða í auglýsingum og öðrum svipuðum viðskiptaaðferðum að snyrtivara hafi tiltekna eiginleika eða virkni sem hún hefur ekki.

Sendu Neytendastofu greinar um virkni CBD

Neytendastofa fékk sendar greinar frá forsvarsmönnum CBD ehf. sem lutu að virkni CBD og töldu þeir sig hafa fært sönnur á fullyrðingum sínum. Höfnuðu forsvarsmenn að hafa brotið lög.

Félagið tilkynnti svo 11. febrúar 2022 að það hefði fjarlægt allar fullyrðingar sem komu fram á vefsíðunni. Sagðist félagið hafa verið í góðri trú þegar það birti fullyrðingarnar. Tóku eigendur fyrirtækisins fram að þeir væru ekki lögfróðir og að það hafi ekki verið vilji þeirra að viðhafa óréttmæta og villandi viðskiptahætti.

Forsvarsmenn óskuðu eftir að gerð yrði sátt í málinu, sem Neytendastofa hafnaði og sektaði félagið um 100 þúsund krónur.