Ríkisstjórnin hefur ákveðið að framlengja efnahagsaðgerðir og veita þeim sem glíma við langtímaatvinnuleysi 100 þúsund króna eingreiðslu eftir mánaðarmót. Hlutabótaleiðin verður hluti af Hefjum störf átakinu. Hefjum störf virkar þannig að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök fá sérstakan stuðning fyrir að ráða til sín fólk og mun nú ná til fólks á hlutabótaleiðinni.

„Við viljum að vel stæð fyrirtæki bæti við sig fólki,“ sagði Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra í samtali við blaðamenn fyrir utan Ráðherrabústaðinn um hádegi í dag.

Þá verður 600 milljónum varið í geðheilbrigðismál barna og ungmenna í samstarfsverkefni félags- heilbrigðis- og menntamálaráðuneytis. Þá verður farið í fjölbreyttar félagslegar aðgerðir til stuðnings viðkvæmra hópa, þ.e. aldraðra, fatlaðs fólks og barna og ungmenna með áherslu á geðheilbrigði.

„Við þurfum að taka utan um andlega líðan barna og ungmenna og áfram eitt til tvö ár eftir að faraldrinum lýkur,“ sagði Ásmundur í samtali við blaðamenn. Þetta eru fjölþættar aðgerðir að sögn ráðherrans en félagsmálaráðuneytið mun vinna með félagsþjónustu sveitarfélaga og styrkja frjál félagssamtök sem þjónusta börn og ungmenni.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Aðspurður um hvort eingreiðslan og átakið muni draga úr atvinnuleysi sagðist ráðherrann þegar hafa séð jákvæðar breytingar; átakið hafi skapað fjögur þúsund störf.

„Atvinnuleysið er að dragast hratt saman og það er meðal annars fyrir aðgerðir stjórnvalda en einnig vegna þess að faraldrinum er að slota.“

Staða og framhald efnahagsaðgerða vegna COVID, sértækar aðgerðir fyrir námsmenn vegna heimsfaraldurs, hermun á áhrifum bólusetninga á þriðju bylgju COVID-19 og framvinda bólusetninga var meðal annars á dagskrá á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Fréttin verður uppfærð.