Al Lupiano, Banda­ríkja­maður frá New Jer­s­ey, komst að því að rúm­lega hundrað fyrrum nem­endur og starfsfólk í gamla fram­halds­skólanum hans höfðu greinst með sjald­gæf heilaæxli, eftir að hann, systir hans og konan hans greindust öll með slík æxli.

Lupiano var 27 ára þegar hann greindist með sjald­gæft heila­æxli, hjúp­æxli heyrnar­taugar (e. Acoustic Neuroma), sem var ó­venju­lega stórt miðað við aldur. Síðasta sumar, tólf árum seinna, greindist eigin­kona Lupiano með eins æxli og sama dag greindist systir hans með marg­frumna tauga­kíms­æxli (e. Glioblas­toma Multi­forme), annað mjög sjald­gæft æxli í heila. Systir hans lést af völdum sjúk­dómsins.

Ljóst er að líkurnar á því að öll þrjú skyldu greinast með svo sjald­gæf æxli eru mjög litlar. Tauga­sér­fræðingur sem fjöl­skyldan ræddi við taldi þetta vera eina til­fellið þar sem hjón greinast bæði með hjúp­æxli heyrnar­taugar.

Að sögn Lupiano var sér­fræðingurinn á­hyggju­fullur þegar hann komst að því að hjónin og systir Lupiano hafi öll alist upp í sama hverfi þar sem ein þekktustu or­sök heila­æxla sé geislun. Enn fremur höfðu þau öll þrjú stundað nám í sama fram­halds­skóla, Colonia í Woodbrid­ge.

Rúmlega hundrað manns höfðu samband

Lupiano skrifaði fyrir­spurn á Face­book þann 7. mars síðast­liðinn þar sem hann bað fólk sem hafði stundað nám eða unnið í Colonia fram­halds­skólanum að hafa sam­band við sig. Þann 11. apríl hafði hann safnað frá­sögnum 102 fyrrum nem­enda og starfs­fólks sem hafði greinst með sjald­gæf heila­æxlum.

„Aldrei í minni verstu mar­tröð hafði ég ímyndað mér að ná þessum fjölda. Þetta eru hundrað manns með gjör­breytt líf. Hundrað fjöl­skyldur sem þurfa að heyra hrylli­legu fréttirnar. Hundrað sögur um á­föll og van­trú yfir greiningar. Ég bið fyrir því að við fáum svör...,“ skrifar Lupiano í upp­færslu á Face­book-færslunni 11. apríl.

Eitt­hvað af því fólki sem hafði sam­band við Lupiano starfaði við fram­halds­skólann en bjó í öðru hverfi. Lupiano, sem er sjálfur um­hverfis­fræðingur sem hefur meðal annars rann­sakað eitur­efni í jarð­vegi, telur lík­legt að skóla­lóðin hafi verið menguð.

Bæjar­stjóri Woodbrid­ge, John McCor­mack, sagði við frétta­veituna Fox News að hann vilji hefja rann­sóknir á mögu­legri geislun á skóla­lóðinni. Hann hafi þegar rætt við heilsu- og um­hverfis­ráðu­neyti bæjarins sem og eitur­efna­mið­stöð.

Möguleg tenging við geislavirkan úrgang


Lupiano segir mögu­legt að jarð­efnið sem var notað við byggingu fram­halds­skólans hafi komið að ein­hverjum hlutfa frá verk­smiðju sem vann með úraníum, þóríum og beryllín frá fimmta ára­tugnum til ársins 1967, þegar skólinn var byggður.

Verk­smiðjan, Midd­lesex Sampling Plant, var í um þrjá­tíu mínútna fjar­lægð frá Colonia en hefur síðan verið lokað. Að­ferðirnar sem notaðar voru á þeim tíma til að eyða geislun hefði lík­lega ekki komið í veg fyrir að snefil­magn af geisla­virkum efnum gæti dreifst til nær­liggjandi svæða með veðri og vind. Geisla­virkum efnum var einnig komið fyrir í land­fyllingu í Midd­lesex á fimmta ára­tugnum.

Mögu­legt er að geisla­virkur jarð­vegur kunni að hafa verið notaður við byggingu fram­halds­skólans á sjöunda ára­tugnum.

Colonia framhaldsskólinn í Woodbridge.
Skjáskot/Google Maps