Al Lupiano, Bandaríkjamaður frá New Jersey, komst að því að rúmlega hundrað fyrrum nemendur og starfsfólk í gamla framhaldsskólanum hans höfðu greinst með sjaldgæf heilaæxli, eftir að hann, systir hans og konan hans greindust öll með slík æxli.
Lupiano var 27 ára þegar hann greindist með sjaldgæft heilaæxli, hjúpæxli heyrnartaugar (e. Acoustic Neuroma), sem var óvenjulega stórt miðað við aldur. Síðasta sumar, tólf árum seinna, greindist eiginkona Lupiano með eins æxli og sama dag greindist systir hans með margfrumna taugakímsæxli (e. Glioblastoma Multiforme), annað mjög sjaldgæft æxli í heila. Systir hans lést af völdum sjúkdómsins.
Ljóst er að líkurnar á því að öll þrjú skyldu greinast með svo sjaldgæf æxli eru mjög litlar. Taugasérfræðingur sem fjölskyldan ræddi við taldi þetta vera eina tilfellið þar sem hjón greinast bæði með hjúpæxli heyrnartaugar.
Að sögn Lupiano var sérfræðingurinn áhyggjufullur þegar hann komst að því að hjónin og systir Lupiano hafi öll alist upp í sama hverfi þar sem ein þekktustu orsök heilaæxla sé geislun. Enn fremur höfðu þau öll þrjú stundað nám í sama framhaldsskóla, Colonia í Woodbridge.
Rúmlega hundrað manns höfðu samband
Lupiano skrifaði fyrirspurn á Facebook þann 7. mars síðastliðinn þar sem hann bað fólk sem hafði stundað nám eða unnið í Colonia framhaldsskólanum að hafa samband við sig. Þann 11. apríl hafði hann safnað frásögnum 102 fyrrum nemenda og starfsfólks sem hafði greinst með sjaldgæf heilaæxlum.
„Aldrei í minni verstu martröð hafði ég ímyndað mér að ná þessum fjölda. Þetta eru hundrað manns með gjörbreytt líf. Hundrað fjölskyldur sem þurfa að heyra hryllilegu fréttirnar. Hundrað sögur um áföll og vantrú yfir greiningar. Ég bið fyrir því að við fáum svör...,“ skrifar Lupiano í uppfærslu á Facebook-færslunni 11. apríl.
Eitthvað af því fólki sem hafði samband við Lupiano starfaði við framhaldsskólann en bjó í öðru hverfi. Lupiano, sem er sjálfur umhverfisfræðingur sem hefur meðal annars rannsakað eiturefni í jarðvegi, telur líklegt að skólalóðin hafi verið menguð.
Bæjarstjóri Woodbridge, John McCormack, sagði við fréttaveituna Fox News að hann vilji hefja rannsóknir á mögulegri geislun á skólalóðinni. Hann hafi þegar rætt við heilsu- og umhverfisráðuneyti bæjarins sem og eiturefnamiðstöð.
Möguleg tenging við geislavirkan úrgang
Lupiano segir mögulegt að jarðefnið sem var notað við byggingu framhaldsskólans hafi komið að einhverjum hlutfa frá verksmiðju sem vann með úraníum, þóríum og beryllín frá fimmta áratugnum til ársins 1967, þegar skólinn var byggður.
Verksmiðjan, Middlesex Sampling Plant, var í um þrjátíu mínútna fjarlægð frá Colonia en hefur síðan verið lokað. Aðferðirnar sem notaðar voru á þeim tíma til að eyða geislun hefði líklega ekki komið í veg fyrir að snefilmagn af geislavirkum efnum gæti dreifst til nærliggjandi svæða með veðri og vind. Geislavirkum efnum var einnig komið fyrir í landfyllingu í Middlesex á fimmta áratugnum.
Mögulegt er að geislavirkur jarðvegur kunni að hafa verið notaður við byggingu framhaldsskólans á sjöunda áratugnum.
