Hundrað ára gamall maður í Þýskalandi hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa starfað sem fangavörður í útrýmingabúðum nasista á tímum seinni heimsstyrjaldar. Sky News greinir frá.
Maðurinn, sem er 101 árs gamall var síðastliðinn fimmtudag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir aðild að 3518 morðum. Hann var sakaður um að hafa tekið þátt í „aftöku aftökusveitar á sovéskum stríðsföngum árið 1942“ og að hafa myrt fanga „með eiturgasinu Zyklon B“, sem notað var í gasklefum. Nafn hans hefur ekki verið gefið upp í samræmi við þýsk persónuverndarlög
Hann hafði neitað fyrir að hafa starfað sem SS fangavörður í Sachsenhausen útrýmingabúðunum á árunum 1942 til 1945. Lögmenn mannsins sögðu ekkert sanna að hann hafi tekið þátt í að myrða fanga.
Saksóknarar í málinu höfðu undir höndunum skjöl sem sönnuðu það að maðurinn hafði starfað í útrýmingabúðunum og var fimm ára fangelsisdómur staðfestur yfir honum. Dómarinn í málinu sagði að maðurinn hafi fúslega stutt fjöldaútrýmingar á föngum í búðunum.
Sachsenhausen útrýmingabúðirnar voru stofnaðar árið 1936 og voru um 200 þúsund manns í haldi í búðunum til loka stríðsins árið 1945. Talið er að 40 til 50 þúsund manns hafi látist í búðunum.