Dýrfinna og hundasveitin hafa frá því á föstudag verið við leit að hundunum Veru í Reykjanesbæ. Vera slapp ásamt hvolpinum Snow um klukkan 23 á föstudagskvöldið. Þau sáust nokkrum klukkustundum síðar við Grænás í Reykjanesbæ og svo um 4.30 við verslun Nettó við Iðuvelli en svo um hálftíma síðar sást einhver taka annan hundinn, Veru, upp í bíl nærri Sigurjónsbakaríi í Reykjanesbæ.

„Við erum að leita að hundi. Þau voru fyrst mæðgin sem týndust á föstudaginn. Þau sáust alltaf saman en svo lýsti vitni því fyrir okkur að hafa séð manneskju taka annan hundinn upp í bíl í gær. Sú kveikti ekki strax á því að þetta væri ekki eigandinn,“ segir Eygló Anna Guðlaugsdóttir sjálfboðaliði á vegum Dýrfinnu.

Síðar í gær náðist Snow við flugvöllinn en ekkert hefur spurst til Veru síðan manneskjan sást taka hana upp í bílinn sinn sem var af gerðinni Toyota Rav

„Við höfum séð svona mál áður, á þessu svæði. Þar var silkiterrier tík sem týndist í rigningu en birtist svo allt í einu þurr, tandurhrein og í góðum holdum á eina gangstéttina í Reykjanesbæ. Að öllum líkindum er fólk að taka hundinn heim og bíða þess að boðin séu fundarlaun,“ segir Eygló.

Hún segir oft há fundarlaun í boði og að það hafi því verið gripið til þess að bjóða þau fram líka núna í þeirri von að sá sem tók Veru gefi sig fram.

„Hún hvarf í kringum svæði sem kallast Hólmgarður, þar sem leikskólinn og Sigurjónsbakarí er, og ef einhver á svæðinu er með myndavélar myndum við þiggja aðstoð frá þeim,“ segir Eygló.

Hún segir að málið sé unnið í samvinnu við eiganda og að lögreglu hafi verið tilkynnt um málið.

Spurð hvernig leitin fari fram segir hún Dýrfinnu hafa afnot af nætursjónauka og hitamyndavél.

„Með því getum við skimað stórt svæði við flugvöllinn og getum séð hreyfingu og hita í lifandi dýri. Við vorum að vinna með það seint í gær og vasaljós. Tegundin er svo létt að við finnum ekki spor í svona hörðum snjó,“ segir Eygló en hægt er að finna allar upplýsingar um það hvernig er hægt að ná á þær og láta vita ef fólk hefur séð Veru eða veit eitthvað um hvarf hennar.