„Þetta snýst um að bjarga sem flestum á sem stystum tíma – þegar hundurinn lætur vita þá veit maður ekki hvort viðkomandi er lífs eða liðinn,“ segir Jón Svanberg Hjartarson í Útkallsþætti Óttars Sveinssonar í kvöld um snjóflóðið sem féll á Flateyri 26. október 1995.

„Hundurinn finnur lyktina – en þó svo að þeir finni fólk þá er hellings vinna eftir. Það á eftir að grafa og jafnvel djúpt.“

Jón segir að í raun hafi öll verkfæri ,,allt sem hendi var næst“ hafi verið notað til að grafa upp fólk á ögurstundu við einstaklega erfiðar aðstæður.

„Álskóflur, stálskóflur og jafnvel hrífur. En í svona flóði þá er það þannig að álskóflurnar verða bara eins og blöð, pappír, þær spænast bara niður,“ segir Jón Svanberg sem var lögreglu- og björgunarsveitarmaður á Flateyri.

Hann lýsir einnig hve tíminn var sérstakur eftir flóðinn. ,,Maður var í hálfgerðum kappakstri á milli jarðarfara,“ segir hann en útfarir þeirra sem létust fóru margar fram á svipuðum tíma. 20 létust í flóðinu. Í þættinum segir Jón Svanberg jafnframt frá því hvernig hefur gengið að vinna í áföllunum.

Útkall er á dagskrá allar vikur á Hringbraut. Hér fyrir neðan er klippa úr þættinum.