Sótt er um lóð á Esjumelum undir hótel og dagpössun fyrir hunda. Þörfin er sögð mikil. Hundafrömuður segir líklegt að hundar eigi erfitt með aðlagast því að eigendur fari aftur út fyrir heimilið til vinnu og skóla eftir COVID-19.
Okkur finnst þetta vanta
„Okkur finnst þetta vanta,“ segir Ragnheiður Arnardóttir sem með eiginmanni sínum, Rúnari Róbertssyni, óskar eftir lóð frá Reykjavíkurborg undir hundahótel á Esjumelum.
Samhliða hótelrekstrinum er ætlunin að bjóða dagpössun fyrir hunda. Ragnheiður, sem á hund sjálf og hefur farið með hann á sýningar, segir slíka dagpössun ekki hafa boðist að undanförnu. „Ef þú vinnur langa daga og það er enginn annar heima væri sniðugt að hafa svona í boði,“ segir hún.
Að sögn Ragnheiðar er ráðgert að pláss verði fyrir um fjörutíu hunda á hótelinu. Staðsetningin á Esjumelum í jaðri höfuðborgarsvæðisins sé fullkomin. Rúmt geti orðið um starfsemina og hún trufli ekki inni í borginni. „Ég myndi alveg gera mér þessa ferð til að koma hundinum mínum á góðan stað þar sem ég veit að það er vel hugsað um hann, jafnvel þó það sé bara yfir daginn.“

Guðfinna Kristinsdóttir, forstjóri gæludýraleitarforritsins Dýrfinnu, stjórnandi Hundasamfélagsins og stjórnarmaður í bæði Félagi ábyrgra hundaeigenda og Dýraverndarsambandi Íslands, skrifar umsögn með umsókn Ragnheiðar. Þar bendir hún á að COVID-19 hafi haft þau áhrif að margir hafi verið heimavinnandi og eftirspurn eftir hvolpum hafi á þessum tíma verið langt umfram framboð.
„Undir venjulegum kringumstæðum er áætlað að um 22 til 55 prósent hunda þjáist af aðskilnaðarkvíða að einhverju leyti. Þar af leiðandi eru miklar líkur á því að hundar sem alast upp með heimavinnandi eigendum muni eiga erfitt með breytinguna þegar fólk fer aftur út á vinnumarkaðinn,“ skrifar Guðfinna.
Kveðst Guðfinna telja að nú sé rétti tíminn fyrir dagpössun fyrir hunda. Fólk þurfi að sjá til þess að hundar aðlagist breyttum heimilisaðstæðum. Til þess að draga úr hættu á að fólk finni dýrunum nýtt heimili sé nauðsynlegt að í boði sé að setja hundana í dagpössun.
Vöntun á þessu úrræði
„Sem aðili með mikla reynslu af hundamenningu Íslands þá get ég staðfest það að það er bæði vöntun á þessu úrræði innan höfuðborgarsvæðisins og þetta yrði mjög jákvætt framfaraskref í hundamenningu Íslands,“ skrifar Guðfinna.
Ragnheiður segist hafa kynnt sér hjá MAST þær kröfur sem gerðar séu til reksturs hundahótela og munu uppfylla þær. Þótt rekstraráætlanir liggi fyrir hafi teikningar af væntanlegu hundahóteli ekki verið gerðar. Beðið verði með þann kostnað þar til ljóst sé að lóð fáist. Hún sé bjartsýn á að það gangi eftir.
„Okkur finnst þetta ótrúlega spennandi. Ef við fáum ekki þessa lóð þá finnum bara einhverja aðra.“