Haraldur Bene­dikts­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og bóndi á Reyni, greinir frá því á Face­book að lög­reglan hafði sam­band við hann í gær og tjáð honum að tveir hundar hefðu ráðist á fé og sært á­setningsgimbur á landinu hans. Hann kallar eftir að hunda­sam­fé­lagið virði reglur og eignar­rétt bænda og spyr sig hvort harðari að­gerðir gegn slíku hátta­lagi séu nauð­syn­legar.

„Í gær­kvöldi hafði lög­reglan sam­band og lét okkur vita að tveir husky hundar hefði ráðist á fé og hel­sært á­setningsgimbur, frá okkur. Það var ekkert annað að gera að af­lífa skepnuna - hún var hrein­lega tætt niður. Ég vil taka fram að ég þakk­látur hunda­eig­andum að láta vita af at­vikinu. Það er í fyrsta sinn í meira en 30 ár - sem það er þó gert. Alla­vega gang­vart okkur. En við erum sem betur fer ekki með mörg svona til­vik ári. Þetta hefur valdið mun meiri skaða hjá ná­grönnum okkar,“ segir Haraldur.

Haraldur segir að lausa­ganga hunda sé mikið vanda­mál á þessu svæði. Hann segir að hunda­eig­endur viðri hunda sína innan girðinga hjá bændum. „Það skiptir engu máli þó skilti séu og lausa­ganga þeirra þar bönnuð,“ segir Haraldur.

Hann segir að um­ferð hunda­eig­enda og lausa­ganga hunda sé stöðugt að aukast og að það sé ó­friður vegna þess. „Við höfum hrein­lega ekki lengur yfir­ráð yfir stórum hluta af jörð okkar - eða getum nýtt hana til beitar,“ segir Haraldur.

Sam­kvæmt Haraldi er lausa­ganga hunda á svæðinu ekki ný af nálinni. Þegar hann kemst í færi við hunda­eig­endur, mætir honum oftast stælar. „Því miður eru þeir mun færri sem sjá að sér.“

„Í gegnum árin höfum við átt fé orðið fyrir barðinu á slíku. Fé er sært -það er hrein­lega drepið -eða það hrekst í skurði og drukknar. Þeirra bíður kvalar­fullur dauði - ef ekki sést í tíma, að skepnan sé særð,“ segir Haraldur.

Hann kallar eftir að sam­fé­lag hunda­eig­enda virði reglur og eigna­rétt bænda á þeirra löndum.

„Spurningin er hvort fer að verða tíma­bært að kalla eftir mun harðari að­gerðum gegn slíku háttar­lagi,“ segir Haraldur.