Stærstu sveitarfélög landsins innheimtu á árunum 2007 til 2019 rúman milljarð króna á verðlagi ársins 2019 í hundaeftirlitsgjald. Þetta sýna tölur sem Félag ábyrgra hundaeigenda hafa tekið saman.

Nú hafa fulltrúar allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur, nema Sósíalistaflokksins, boðað komu sína á málþingið sem fer fram á laugardaginn klukkan 11-13 á skrifstofu Nordic Vistor, Bíldshöfða 20.

Freyja Kristinsdóttir, formaður félagsins, segir að spurningar hafi verið sendar á 29 sveitarfélög um fyrirkomulag hundaeftirlits og kostnað. Svör hafa borist frá átta sveitarfélögum.

Freyja Kristinsdóttir, formaður Félags ábyrgra hundaeigenda
Fréttablaðið/Vilhelm

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur kvörtunum til hundaeftirlits fækkað umtalsvert á síðustu árum. Það sama gildir um fjölda hunda sem vistaðir eru í geymslu og fjölda lausra hunda sem eru tilkynntir. Samt sem áður hefur rekstrarkostnaður við eftirlitið aukist.

Freyja bendir á að samkvæmt lögum megi ekki nýta fjármuni sem innheimtir eru af hundaeigendum í annað en kostnað við hundaeftirlit.

„Það er ekki hægt að sjá að það fari svona mikill tími í hundaeftirlitið miðað við þær tölur sem við sjáum yfir verkefnin. Hundasamfélagið hefur til dæmis í raun tekið við þessu hlutverki að koma týndum hundum heim. Í rauninni er enginn tilgangur með hundaeftirlitinu að okkar mati.“

Á málþinginu verður einnig rætt um hundahald og skipulagsmál. „Í borgarskipulagi er aldrei í rauninni minnst á hundahald eða hvar eigi að hafa hundasvæði þegar verið er að skipuleggja eitthvað nýtt,“ segir Freyja.

Hún gagnrýnir að samkvæmt áætlunum um Borgarlínu muni hún skera hundasvæðið á Geirsnefi í sundur.

„Þegar maður skoðar svona hundasvæði og hundagerði í borgum erlendis þá eru þau miklu fleiri og stærri. Hér er viðhorfið að þau verði að vera úr alfaraleið og það má helst ekki sjá í þau.“

Flækjustig í regluverkinu

Annað vandamál sé hversu mikið flækjustig sé í regluverkinu í sambandi við hundahald. Hundasamþykktir sveitarfélaganna stangist oft á við landslög, til dæmis lög um velferð dýra.

Miðað við svör sveitarfélaganna voru á árunum 2000-2016 minnst fimm hundar aflífaðir á vegum hundaeftirlits. „Það sem er verst í þessu er að það sé yfirhöfuð kannski verið að aflífa heilbrigða hunda í stað þess að koma þeim til Dýrahjálpar.“

Þar fyrir utan séu dæmi um hótanir sveitarfélaganna. Dæmi um slíkt sé frá 2018 í sveitarfélaginu Árborg. Þar týndist hundur sem var svo tekinn af hundaeftirlitinu.

„Eigandinn fékk þau skilaboð að ef hundurinn yrði tekinn í þriðja sinn yrði hann aflífaður án þess að eigandinn yrði látinn vita. Það eru engin lög eða reglur sem styðja þetta. Við höfum heyrt fleiri segja frá þessu. Það er fyrir neðan allar hellur að koma með svona hótanir.“