Reykjavíkurborg hefur stofnað DÝR, Dýraþjónustu borgarinnar, sem á að einfalda alla þjónustu. Borgin vill fá hundaeigendur til að skrá sína hunda en eigendur skilja ekkert í hvað gjaldið fer. Þeir fagna þó lækkun gjaldsins. Um tímabundið tilraunaverkefni er að ræða til þriggja ára með það að markmiði að hækka hlutfall skráðra hunda í Reykjavík.
Skráningargjaldið verður nú 12 þúsund krónur en var áður tæplega 21 þúsund krónur. Árlegt þjónustu- og eftirlitsgjald lækkar um helming, fer úr um 20 þúsundum í tæpar 10 þúsund krónur. Verkefnið byggir á mati stýrihóps um þjónustu við gæludýr þar sem fram kemur að hlutfall skráðra hunda fari lækkandi í borginni og nauðsyn þess að snúa þeirri þróun við.
Samkvæmt greinargerð sem lögð var fyrir borgarstjórn kemur fram að til að standa undir rekstri hundaeftirlitshluta nýrrar Dýraþjónustu, sem sé um 31 milljón króna á ári, þurfi að fjölga skráningum um hartnær 80 prósent.
Fjölgi skráningum umfram áætlanir er jafnvel unnt að lækka gjaldskrána enn frekar. Hugsunin er að gjöld standi undir kostnaði vegna hundahalds. Hver sá kostnaður er og í hvað hann fer er ekki alveg vitað, samkvæmt framkvæmdastjóra HRFÍ, Guðnýju Rut Isaksen.
Hundasamfélagið hefur velt þessu gjaldi fyrir sér

„Hundasamfélagið hefur velt þessu gjaldi fyrir sér. Það hefur verið kallað eftir útskýringum hvað gjaldið fer í og hingað til skilst mér að það hafi aðallega verið launakostnaður vegna utanumhalds um skráningar og afskráningar. Markmið skráningar hefur síðan verið aðallega að rukka gjaldið. Það getur seint talist þjónusta við hundaeigendur og hlýtur að skýrast af athugunarleysi. En það er gott ef það á að breytast, enda sárvantar raunverulega þjónustu við hundaeigendur,“ segir Guðný.
Að sögn Guðnýjar er líklega allur gangur á því hvort fólk skrái hundana sína hjá borginni.
Telur um jákvætt skref að ræða
„Ástæðan fyrir því er kannski að hluta að þetta gjald hefur runnið í hundaeftirlit sem er einnig ábyrgt fyrir því að handsama týnda hunda, sem gerist örsjaldan. Þeir finnast bara á Facebook. Gjaldið hefur hingað til verið óskýrt og á herðum hundaeigenda umfram aðra dýraeigendur.“
Guðný fagnar þó þessu skrefi og sérstaklega aukinni fræðslu, enda kunni ekki allir að umgangast hunda.
„Vonandi er þetta skref í áttina að jákvæðara viðhorfi og meiri fræðslu, enda hefur hundaeign aukist mikið. Það er mikilvægt að kenna börnum og fólki almennt að umgangast hunda. Sá angi er afskaplega jákvæður sem og lækkun á gjaldinu þó það megi velta ýmsum hliðum upp um það mál, eins fögnum við að sjálfsögðu boðuðu auknu samstarfi við borgina,“ segir Guðný.