Reykja­víkur­borg hefur stofnað DÝR, Dýra­þjónustu borgarinnar, sem á að ein­falda alla þjónustu. Borgin vill fá hunda­eig­endur til að skrá sína hunda en eig­endur skilja ekkert í hvað gjaldið fer. Þeir fagna þó lækkun gjaldsins. Um tíma­bundið til­rauna­verk­efni er að ræða til þriggja ára með það að mark­miði að hækka hlut­fall skráðra hunda í Reykja­vík.

Skráningar­gjaldið verður nú 12 þúsund krónur en var áður tæp­lega 21 þúsund krónur. Ár­legt þjónustu- og eftir­lits­gjald lækkar um helming, fer úr um 20 þúsundum í tæpar 10 þúsund krónur. Verk­efnið byggir á mati stýri­hóps um þjónustu við gælu­dýr þar sem fram kemur að hlut­fall skráðra hunda fari lækkandi í borginni og nauð­syn þess að snúa þeirri þróun við.

Sam­kvæmt greinar­gerð sem lögð var fyrir borgar­stjórn kemur fram að til að standa undir rekstri hunda­eftir­lits­hluta nýrrar Dýra­þjónustu, sem sé um 31 milljón króna á ári, þurfi að fjölga skráningum um hart­nær 80 prósent.

Fjölgi skráningum um­fram á­ætlanir er jafn­vel unnt að lækka gjald­skrána enn frekar. Hugsunin er að gjöld standi undir kostnaði vegna hunda­halds. Hver sá kostnaður er og í hvað hann fer er ekki alveg vitað, sam­kvæmt fram­kvæmda­stjóra HRFÍ, Guð­nýju Rut Isak­sen.

Guðný ásamt Boss sem er ástralskur fjárhundur.

„Hunda­sam­fé­lagið hefur velt þessu gjaldi fyrir sér. Það hefur verið kallað eftir út­skýringum hvað gjaldið fer í og hingað til skilst mér að það hafi aðal­lega verið launa­kostnaður vegna utan­um­halds um skráningar og af­skráningar. Mark­mið skráningar hefur síðan verið aðal­lega að rukka gjaldið. Það getur seint talist þjónusta við hunda­eig­endur og hlýtur að skýrast af at­hugunar­leysi. En það er gott ef það á að breytast, enda sár­vantar raun­veru­lega þjónustu við hunda­eig­endur,“ segir Guð­ný.

Að sögn Guð­nýjar er lík­lega allur gangur á því hvort fólk skrái hundana sína hjá borginni.

Telur um jákvætt skref að ræða

„Á­stæðan fyrir því er kannski að hluta að þetta gjald hefur runnið í hunda­eftir­lit sem er einnig á­byrgt fyrir því að hand­sama týnda hunda, sem gerist ör­sjaldan. Þeir finnast bara á Face­book. Gjaldið hefur hingað til verið ó­skýrt og á herðum hunda­eig­enda um­fram aðra dýra­eig­endur.“

Guð­ný fagnar þó þessu skrefi og sér­stak­lega aukinni fræðslu, enda kunni ekki allir að um­gangast hunda.

„Vonandi er þetta skref í áttina að já­kvæðara við­horfi og meiri fræðslu, enda hefur hunda­eign aukist mikið. Það er mikil­vægt að kenna börnum og fólki al­mennt að um­gangast hunda. Sá angi er af­skap­lega já­kvæður sem og lækkun á gjaldinu þó það megi velta ýmsum hliðum upp um það mál, eins fögnum við að sjálf­sögðu boðuðu auknu sam­starfi við borgina,“ segir Guð­ný.