Á morgun eru tvö ár liðin frá því að Anna Linda Bjarnadóttir lenti í bílslysi á Arnarnesbrú í Garðabæ en hún slasaðist mikið og hefur unnið hörðum höndum að því í tvö ár að ná bata.

Anna Linda segir áverka eftir slysið enn vera að koma í ljós í dag þrátt fyrir að tvö ár séu liðin. Anna Linda sem er lögfræðingur hefur ekki getað starfað við fullt starf frá slysinu. „Ég get ekki unnið mikið meira en 30 til 50 prósent starf.“

Hún leitar allra leiða til að reyna auka starfsgetu en afleiðingar slyssins hafa valdið mikilli heila þreytu. Anna Linda stendur fyrir viðburði í Garðakirkju um umferðaröryggi og afleiðingar vegna umferðarslysa á morgun í Garðakirkju klukkan 19.30. Hún stefnir að því að gera viðburðinn árlegan.

Auk Önnu Lindu mun bæjarstjóri Garðabæjar flytja erindi um umferðaröryggi og aðgerðir til að stuðla að því. Þá mun jafningjahópurinn „Á batavegi“ verða kynntur sem Anna Linda stofnaði ásamt öðrum tjónþola eftir alvarlegt umferðarslys. Auk erindis um vangreiningu á áverkum kvenna. Þá munu tónlistarmennirnir Einar Örn Magnússon og Matthías Helgi Sigurðarson leika ljúfa tóna og flytja tónlistaratriði.

Anna Linda segir jafningastuðninginn skipta sköpum en rúmlega þrjátíu manns eru nú í hópnum sem deila þeirri sameiginlegu reynslu að glíma við áverka eftir umferðarslys.

„Hópurinn hefur veitt okkur mjög mikinn stuðning. Við erum að deila meðferðarúrræðum, reynslu og ýmsum gagnlegum upplýsingum. Þetta er alveg heilmikil vinna að standa í þessu að ná bata eftir svona hræðilegt áfall,“ segir Anna Linda og bætir við að hópurinn sé opinn öllum sem glíma við áverka eftir umferðarslys.

Aðspurð hvort ökumaðurinn hafi sett sig í samband við hana segir Anna Linda svo vera, hún hafi hringt einu sinni. „Síðan hittumst við í fyrrasumar fyrir mína tilstilli en hún hefur aldrei átt frumkvæði að neinu,“ segir Anna Linda en bætir við að hún hafi beðist afsökunar þegar hún hringdi.

Ökumaðurinn var ölvaður þegar slysið átti sér stað. „Hún gerir sér enga grein fyrir þeim skaða sem hún er búin að valda og öllum þeim þjáningum, sársauka, fyrirhöfn og kostnaði sem ég hef orðið fyrir af hennar völdum. Hún mun aldrei gera sér grein fyrir því tjóni sem hún olli,“ segir Anna Linda.

Aðspurð segir Anna Linda Vegagerðina hafa unnið að úrbótum á brúnni sem slysið átti sér stað. Hönnun á öryggis stálgrindum hafi verið breytt í kjölfarið.

Mynd frá vettvangi slyssins.
Mynd/Aðsend