Steingerður Sonja Þórisdóttir
Laugardagur 19. september 2020
09.00 GMT

Fyrst þegar ég byrjaði að gera tónlist náði ég ekki að skapa almennilegan þráð en allt í einu fór þetta að koma. Mér finnst mikilvægt að pæla ekki bara í hversu flott tónlistin er, heldur reyna líka að hafa einhvern góðan boðskap. Ég passa mig að upphefja ekki ruglið, það getur farið svo illa. Ég var mjög heppinn,“ segir Sigurður Rósant, alltaf kallaður Siggi, sem gefur út lag tileinkað móður sinni heitinni á mánudaginn. Það hefst á upptöku af rödd hennar þar sem hún talar til sonar síns: „Siggi, ég elska þig, lífið er ekki alltaf auðvelt.“

Þó að árin í lífi Sigga telji aðeins tuttugu og fjögur, á hann að baki átakanlegri lífsreynslu en flestir. Fíkniefnaneysla hefur sett mark sitt á líf hans um árabil sem hann segir eiga rót í vanlíðan í æsku.

Móðir Sigga, María Ósk Sigurðardóttir, trúði þó alltaf á það góða í honum enda kallaði hún hann alltaf ljósabarnið sitt. Þegar Siggi er beðinn um að lýsa móður sinni nefnir hann fyrst að hún hafi verið einstaklega góðhjörtuð og næm á tilfinningar annarra. Það hafi þó vafist fyrir henni sjálfri að fylgja eftir þeim fallegu hugsjónum og boðskap sem hún brýndi fyrir börnum sínum.

Síðustu árin í lífi Maríu reyndust henni afar erfið. Að sögn Sigga var hún uppfull af samviskubiti gagnvart börnunum sínum sem hafi haft djúpstæð áhrif á líðan hennar og á endanum tekið sinn toll. María Ósk fannst látin í bifreið sinni í júlí, degi eftir að lýst var eftir henni í fjölmiðlum.

„Ég kem frá ágætlega fínu heimili. Blóðfaðir minn var ekki alltaf til staðar. Hann er samt yndislegur maður, sjómaður og hugsar smá eins og þorskur,“ segir Siggi og hlær.

„Svo á ég systur sem er tveimur árum eldri en ég sem heitir Salný Sif og er best. Ég elska hana mikið. Við eigum í góðum samskiptum. Svo á ég þrjá bræður, Gabríel, Kristin og Andra, sem eru allir yndislegir.“

Siggi var þriggja ára þegar stjúpfaðir hans kom inn í líf fjölskyldunnar.

„Hann var mikið til staðar þegar ég var barn og er pabbi yngri bróður míns. Þó að við séum ekki í miklu sambandi er ég honum þakklátur. Ein skemmtilegasta minning sem ég á úr æsku var þegar hann fór með mig á fótboltamót og við grilluðum pylsur.“ Siggi álasar ekki því fólki sem um tíma gafst upp á að hann næði bata, eða hafi neyðst til að taka þá ákvörðun að slíta samskipti við hann.

Heimilislífið á þessum tíma var nokkuð eðlilegt, að sögn Sigga.

„Það voru kannski ekki til miklir peningar en mamma gerði alltaf sitt besta og við vorum þakklát fyrir það sem við fengum. Ég pældi ekkert endilega í því sem skorti.“

Siggi segir að sér hafi alltaf liðið eins og eitthvað vantaði og verið í sífelldri leit að samþykki. Í dag langar hann að gefa syni sínum allt það sem hann fékk ekki sjálfur. Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli

Sárt að missa stjúpföður

Þegar móðir Sigga og stjúpfaðir slitu samvistum fékk hann loforð um að þeir fengju að hittast þrátt fyrir að sambandinu væri lokið. Það varð ekki raunin.

„Það særði mig mikið enda hafði ég litið á hann sem pabba minn í mörg ár. Ég hitti hann reglulega af því að hann er pabbi litla bróður míns og hef kannski farið út að borða með honum nokkrum sinnum síðan. En alltaf þegar við hittumst þá hugsa ég um að ég elski hann og vonandi elskar hann mig líka. Hann er góður maður.“

Siggi lýsir sér sem ofvirkum krakka sem hafi aldrei fengið þá aðstoð sem hann telur að hann hefði þurft á að halda. Hegðun hans hafi einfaldlega verið túlkuð sem óþekkt.

„Ég fékk ekki þessa athygli sem ég þurfti og fannst eins og tilfinningar mínar væru ekki viðurkenndar. Þannig festist ég í einhverri stanslausri vanlíðan. Ég fann mig svo eiginlega í því að vera prakkari og með vesen,“ segir hann og bætir við að hegðunin hafi svo versnað með árunum.

„Málið er að ég hef alltaf verið góður gaur, trúi ég. Jú, ég hef átt mín tímabil og hef auðvitað lifað glæpalífi. En ég hef alltaf reynt að vera góður maður.“

Siggi segist fyrst hafa reykt kannabis þegar hann var tólf ára gamall. Aðeins tveimur árum síðar sprautaði hann sig í fyrsta sinn með fíkniefnum.

„Ég notaði bara það sem var í boði. Ég var byrjaður að reykja kannabis daglega þegar ég var þrettán ára. Þetta þróaðist mjög hratt. Mig vantaði einhvern til að leggja mér línurnar, en það eina sem gerðist var að ég var skammaður og það fór þveröfugt í mig. Ég fékk ekki réttu skilaboðin um lífið.“

Hann viðurkennir að ákveðin áhættu- og adrenalínfíkn hafi leitt hann áfram á þessum árum.

„Ég elskaði alla spennu. Sem krakki var ég til dæmis alltaf að brjótast inn í skólann minn, bara til að upplifa spennuna. Ég var ekki einu sinni að ræna neinu heldur bara að brjótast inn til að brjótast inn.“

Siggi þótti einn af fremstu hjólabrettamönnum landsins.

„Sama í hvaða ástandi ég var, þá hélt ég alltaf áfram að skeita. Þó að maður hafi byrjað ungur að fikta við þessi hörðu efni þá voru það alltaf bara tímabil. Núna eru mörg ár síðan ég hef sprautað mig,“ segir hann en bætir svo við: „Fyrir utan eitt skipti fyrir þremur árum.“

Siggi segir að kærleikinn hafi alltaf verið leiðarljós í lífi móður hans.
Fréttablaðið/Valli

Niðurbrotin en ekki í neyslu

Það birtir yfir Sigga þegar hann er beðinn að lýsa móður sinni.

„Hún var alltaf til staðar. Kærleikurinn var hennar leiðarljós í lífinu. Sama hvernig aðrir komu fram við hana, þá sýndi hún alltaf kærleik til baka. Nánast eins og hún væri að safna karma, hún var góð í gegn.“ Siggi segir móður sína aldrei hafa átt í vandræðum með áfengi eða fíkniefni en farið hafi að falla undan fæti þegar hann var í kringum níu ára aldurinn.

„Það sem braut hana mest var þegar henni var neitað um að hitta yngri bróður minn. Því var meðal annars logið upp á hana að hún hefði verið í neyslu. Það er alls ekki satt.“ Siggi segir mann hafa komið inn í líf móður sinnar sem hafi haft slæm áhrif á fjölskylduna. „Það var svo ótrúlega margt erfitt sem gerðist,“ segir Siggi.

„Mamma þráði líka öryggi. Hún starfaði sem tækniteiknari og hafði ekki mikið á milli handanna.“

Í nokkur ár voru Siggi og móðir hans ósátt og töluðust minna við. Það gerðist í kjölfar þess að hún ákvað að flytja til Noregs, án Sigga, sem upplifði það sem útskúfun.

„Þá flutti ég til ömmu sem er yndisleg manneskja, samt svolítið fyndin,“ segir hann og hlær. „Þetta var náttúrulega flókið, ég var eins og ég var. Ég fann frið í því að reykja gras. Ég man eftir því þegar ég reykti í fyrsta sinn og einhver ró rann yfir mig, allur kvíðinn hvarf,“ segir Siggi sem hafði þjáðst af kvíða frá því hann var lítið barn.

Að sögn Sigga hefur amma hans alltaf verið til staðar og hans helsti stuðningsmaður.
Fréttablaðið/Valli

Samviskubit gagnvart börnunum

Nokkur ár eru liðin frá því slitnaði upp úr síðasta sambandi móður hans. Siggi segir hana aldrei hafa orðið sama eftir það.

„Eitt skiptið kom ég heim og hún sat ein á miðju gólfinu, öskrandi og rífandi af sér hárið. Ég náði engu sambandi við hana og þetta var ekki eina atvikið. Hún lokaði sig líka af heima hjá sér. Það var á einhvern hátt búið að ná að sannfæra hana um að hún væri rugluð. Hún var orðin svo brotin, marg brotin.“

Samskipti Sigga við móður sína voru þó góð síðustu ár.

„Hún kallaði mig alltaf ljósabarnið sitt. Hún sagði það alltaf við mig þegar við hittumst: „Aldrei gleyma að þú ert ljósabarnið mitt.“ Hún var alltaf til staðar fyrir mig, eða eins mikið og hún gat.

Hún var alltaf að segja við okkur síðustu árin hvað hún væri miður sín yfir að hafa ekki verið meira til staðar, eða hafa ekki gert meira fyrir okkur á meðan á þessu erfiða tímabili stóð. Henni leið eins og hún væri fyrir. Hún var í stanslausri baráttu við sjálfa sig.“

Hann segir að það erfiðasta við ásakanirnar í garð móður hans hafi verið sú staðreynd að hún hafi verið farin að trúa þeim sjálf.

„Mamma þorði stundum ekki að vera ein með Leó, son minn, því hún var svo hrædd um að þetta væri satt, að hún væri ekki nógu góð við börn. Það var bara búið að telja henni trú um það. Henni leið eins með dóttur Salnýjar, systur minnar. Hún átti einnig erfitt með að vera hátt uppi í húsi eða annars staðar með börn. Það var eitthvað sem tengdist æsku hennar. Hún faldi alla hnífa heima hjá sér því hún var svo taugatrekkt yfir þessu. Ég fann ekki einu sinni brauðhníf heima hjá henni,“ segir Siggi og bætir við að hann hafa upplifað það svo að móðir hans væri alltaf að bíða eftir næsta áfalli.

Hjartahimnubólga af ofneyslu

Fyrir sex árum reif Siggi á sér þindina og fékk hjartahimnubólgu vegna ofneyslu.

„Þá hafði ég tekið alls konar efni og hjartað fór allt í einu á fullt. Á einhvern ótrúlegan hátt lifði ég það af, en ég var mjög veikur eftir þetta og gat hvorki gengið né borðað. Á þeim tíma var ég byrjaður í tónlistinni en heillengi átti ég svo erfitt með að anda að ég gat ekki rappað.

Það leið hálft ár þar til ég gat borðað almennilegan mat. Ég lifði á grænmetis- og ávaxtadrykkjum. Ég var alltof grannur og mér leið illa, ég var samt alltaf duglegur á brettinu,“ segir hann og hlær.

Siggi kynntist kærustu sinni og barnsmóður, Fanneyju Ósk Þórisdóttur, um þetta leyti.

„Ég var búinn að vera edrú í tvö ár en datt þá aðeins í það eftir að hafa komist í aðgerð vegna þindarslitsins. Það var erfitt, en ég náði mér upp úr því og hélt áfram að vera með Fanneyju.”

Í dái rétt eftir fæðingu sonarins

Fyrir tæpum tveimur árum eignuðust Siggi og Fanney soninn Leó. Hann segir fæðingu Leós hafa verið fallegustu stund lífs síns, en eigin vanlíðan hafi þó varpað skugga á þessa gleðistund.

„Tíu dögum eftir að hann fæddist datt ég í það í eina og hálfa viku. Ég man ekkert frá þeim tíma. Ég endaði í dái í tvær og hálfa viku með nýrnabilun, lifrarbilun og súrefnisleysi í heilanum. Að sögn lækna voru líkurnar á að ég lifði af mjög litlar. Um leið og nýrun byrjuðu að taka við sér þóttu allar líkur á því að ég myndi vakna með varanlegan heilaskaða. Fyrstu tvær vikurnar eftir að ég vaknaði úr dáinu vissi ég ekkert, hvorki hverjir aðrir væru né ég sjálfur. Mamma sat við rúmið hjá mér allan tímann. Hún hlustaði ekki á líkur og tölfræði, heldur vonina.“

María Ósk var handviss um að sonurinn myndi ná sér. Sagði hún Sigga að Guð hefði komið til sín og sagt henni að allt myndi fara vel.

„Nánast allir nema hún voru búnir að missa vonina og kveðja mig.“ Hann segist oft hafa upplifað að þessi trú og tenging Maríu Óskar hafi orsakað hluti sem jaðra við að vera yfirnáttúrulegir.

„Ég þurfti að læra að labba upp á nýtt eftir dáið og var á Grensási. Mér leið stanslaust illa og var alltaf kalt. Mér var kalt í heilan mánuð. En allt í einu fóru hlutirnir að gerast og ég náði smátt og smátt að braggast.“

Fanney stóð líkt og móðir hans með honum allan tímann.

„Hún kom með Leó upp á hvern einasta dag til mín. Hún þekkir mína sögu og veit hvað mér hefur liðið illa. Mér hefur alltaf liðið eins og eitthvað vanti. Til dæmis eins og þegar það kemur að samþykki. Þegar ég var lítill þá hljóp ég beint til mömmu að sýna henni ef ég lærði eitthvað nýtt á brettið og kallaði á hana: „Sjáðu, sjáðu!“ Mig langar bara að vera séður. Mig langar að vera viðurkenndur, fyrir það að vera til.“

Siggi vonast til að geta gefið syni sínum allt það sem hann aldrei fékk í æsku.
Fréttablaðið/Valli

Tók út peninga fyrir börnin

Mánuðina áður en María Ósk lést vörðu hún og Siggi mörgum ómetanlegum stundum saman.

„Við hittumst nánast daglega og hún kom alltaf með mér að sækja Leó á leikskólann. Hún lék við hann á meðan ég eldaði mat. Síðustu ár leið henni það illa að hún horfði bara á gólfið. En undir lokin, var farið að birta yfir henni,“ segir hann.

Daginn áður en María Ósk hvarf lék hún við Leó í sandkassanum fyrir utan heimili Sigga á meðan hann eldaði, líkt og svo oft áður.

„Eftir á upplifi ég að hún hafi mögulega fundið einhvern innri frið þegar hún var búin að taka ákvörðunina. Hún vissi sjálf að hún væri loksins að fá frið frá áhyggjunum og sársaukanum. Hún var bara búin að ákveða þetta.“

María Ósk skildi eftir á heimili sínu fjármuni fyrir börnin sín sem hún elskaði svo mikið. Siggi frétti síðar að hún hefði tekið peningana út hálfu ári áður.

„Ég hafði alltaf verið í svo miklu ójafnvægi. Síðan næ ég mér á réttan kjöl og er á góðum stað í nokkurn tíma. Amma hafði orð á því sjálf, mamma hefði aldrei gert þetta nema af því hún sá að ég var kominn í gott jafnvægi. Hún vildi bara sjá að börnunum hennar liði vel og við værum búin að koma okkur fyrir.“

Að kvöldi 2. júlí síðastliðins var lýst eftir Maríu Ósk í fjölmiðlum. Hún fannst svo látin í bíl sínum í hádeginu daginn eftir.

„Amma hringdi í mig með miklar áhyggjur af mömmu því það var slökkt á símanum hennar. Mamma slökkti aldrei á símanum og ef það gerðist þá fékk amma miklar áhyggjur, því hún vissi hve illa mömmu leið. Síðan hringir litli bróðir minn í mig og segir mér að hún hafi skilið allt eftir, hringana sína, gullúrið, allt saman. Þá fór ég að hágráta,“ rifjar hann upp.

Langar að gefa honum allt

Siggi segir sína nánustu hafa fylgst vel með líðan hans og viðbrögðum.

„Af því ég er náttúrulega eins og ég er. Ég öskraði og vissi ekki hvað ég átti við mig að gera.“

Siggi upplifði mikla vanlíðan í kjölfar fráfalls móður sinnar.

„En ég veit að hún var stolt af mér. Hún var stolt af þeim stað sem ég var kominn á og að það væri hægt að eiga góðar samræður við mig. Þrátt fyrir þetta rugl sem hefur verið á mér, þá sá hún alltaf það góða í mér.“

Hann segir að sér hafi fyrst um sinn þótt erfitt að vera einn með Leó, þar sem móðir hans hafi alltaf verið með þeim.

„Við fjölskyldan erum því dugleg að vera öll saman. Mig langar svo mikið að gefa honum allt sem mig vantaði. Og mér líður eins og ég finni þetta tóm sem hefur alltaf verið í hjartanu mínu fyllast smátt og smátt, í hvert sinn sem ég gef honum það sem ég þráði. Ég vil viðurkenna og samþykkja tilfinningar hans og upplifun. Ég vil gefa honum allt sem ég fékk ekki og svo miklu meira til."

Athugasemdir