Einar Bárðason ræðir um líf sitt og ferilinn í einlægu viðtali við Helgarblað Fréttablaðsins sem kemur út á morgun.
Einar er giftur Áslaugu Thelmu Einarsdóttur. Hún hefur undanfarin ár verið mikið í fjölmiðlum eftir að henni var fyrirvaralaust vikið úr starfi hjá Orku náttúrunnar, undirfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Áslaug greindi frá því árið 2018 að henni hefði verið sagt upp eftir að hafa kvartað undan framkomu yfirmanns síns. Hún höfðaði mál á hendur Orku náttúrunnar og Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að Orka náttúrunnar hefði brotið gegn Áslaugu Thelmu með því hvernig uppsögnin var framkvæmd og var bótaskylda fyrirtækisins viðurkennd.
Einar segir málið hafa haft mikil áhrif á fjölskylduna. „Við erum samheldin hjón og höfum gengið í gegnum alls konar mál sem hafa komið til okkar í gegnum tíðina og ég er alveg rosalega stoltur af henni,“ segir Einar.
„Hún fórnaði gríðarlega miklu með því að stíga fram og það sér ekki enn fyrir endann á því, þetta mál er enn þá í gangi,“ segir hann og bætir við að nú sé dómkvaddur matsmaður að fara yfir málið og þann miska sem Áslaug varð fyrir.
„Ég held að það hafi enginn vinnuveitandi á Íslandi smánað einn einstakling með jafn ógeðfelldum hætti og gert var í þessu tilfelli. Miðað við hvað eignarhald Orkuveitu Reykjavíkur liggur víða er með ólíkindum að enginn hafi þurft að taka ábyrgð,“ segir Einar.
„Þrátt fyrir að málið hafi unnist í Landsrétti og uppsögnin hafi verið dæmd ólögmæt og fyrirtækið sakað um vítavert gáleysi gagnvart starfsmanninum þráast þau við,“ bætir Einar við.
„Þetta er búið að hafa mikil áhrif á okkur og búið að vera ömurlegt. Ég myndi ekki ráðleggja neinum, alla vega ekki þeim sem mér þykir vænt um, að stíga fram og segja frá í svona aðstæðum. Ég get ekki mælt með þessu fyrir nokkurn mann af því að þegar til kastanna kemur þá er sá sem stígur fram bara einn síns liðs, og sérstaklega gagnvart svona pólitísku veldi eins og Orkuveitan er,“ segir Einar.
„Og þetta segi ég í því samhengi að hún væri líklega búin að draga sig út úr þessu ef ekki væri fyrir það að hún vill ekki að einhver annar þurfi að taka þessa baráttu og ganga í gegnum það sama. Þess vegna vill hún klára þetta en þetta hefur verið mjög erfið lífsreynsla,“ segir Einar.
„Seinni árin höfum við mest verið að passa að tala sem minnst um þetta út á við og gæta þess þannig að þetta marki ekki líf okkar og fjölskyldunnar meira en þarf. En ég veð eld og brennistein með þessari konu og geri það stoltur,“ bætir Einar við.
