Hjóli hinnar 13 ára gömlu Birtu Mjallar var stolið fyrir utan heimili hennar í Háaleiti í nótt. Birta hafði safnað fyrir hjólinu frá því síðasta sumar og festi kaup á því í síðustu viku.

Þóranna Friðgeirsdóttir, móðir Birtu, vakti athygli á málinu í facebook færslu í dag og segist ekki skilja ásetning þeirra sem stela hjóli af barni.

„Hún er búin að vera ótrúlega dugleg að vinna síðastliðið ár til að safna sér fyrir hjólinu, bæði búin að vera að passa og svo fékk hún að vinna að með mér í Under Armour, hjálpa til á útsölum og svona,“ segir Þóranna.

Hjólið kostaði um 70.000 krónur og var Birta afar stolt þegar hún hafði safnað sér peningunum og gat loksins keypt sér hjólið.

Þóranna móðir Birtu

Vaknaði í morgun og hjólið var horfið

Hún kom heim á hjólinu í gærkvöldi og í morgun var það horfið. „Ég var ekki heima og hún var ekki með lykla að hjólageymslunni svo hún setur það bara ofan í portið við hjólageymsluna. Í morgun fór svo bróðir hennar út og sá lásinn á jörðinni en ekkert hjól. Hann hleypur upp og lætur mig vita,“ segir Þóranna.

„Ég þurfti síðan að vekja hana með þessum ömurlegu fréttum og hún er bara búin að vera með tárin í augunum síðan,“ bætir Þóranna við.

„Við erum búnar að vera á ferðinni í allan morgun að leita og höfum fengið ýmsar ábendingar um staði í hverfinu þar sem líklegt væri að hjólið fyndist en við höfum ekkert fundið enn,“ segir Þóranna og bætir við að þar sem um nýtt hjól sé að ræða sé það líklega komið í gám og sé á leiðinni úr landi.

Ég trúi á það besta í fólki, virkilega. Kæri einstaklingur, Ég velti því fyrir mér hversu vel þér líður þegar þú...

Posted by Þóranna Friðgeirsdóttir on Wednesday, August 14, 2019