„Við erum að sjá mjög mikla aukningu í sölu á Corona á síðasta ári,“ segir Halldór Ægir Halldórsson, vörumerkjastjóri hjá Vínnesi, umboðsaðila Corona-bjórs hér á landi.

Greint var frá því í erlendum fjölmiðlum að bjórtegundin hefði farið illa út úr kórónaveirufaraldrinum. Í könnun sem USA Today gerði fyrir ári, þegar faraldurinn var að breiðast út, sögðust 16 prósent telja að bjórtegundin væri tengd faraldrinum. Sala bjórsins hélt hins vegar sínu striki.

Halldór Ægir Halldórsson, vörumerkjastjóri hjá Vínnes

Boðið verður upp á tímabundna verðlækkun á Corona í verslunum Vínbúðanna í febrúar. Mun ein flaska lækka um meira en hundrað krónur út mánuðinn. Halldór Ægir segir að ástæðan sé alls ekki léleg sala. „Ísland sker sig úr þegar kemur að sölunni á Corona í fyrra. Þetta var vissulega erfitt ár um allan heim, en ég veit ekki hvað það er, hvort það sé þessi sérstaki húmor Íslendinga sem veldur því að sala Corona eykst svona mikið í miðjum kórónaveirufaraldri en ég veit að salan dróst víða saman,“ segir Halldór.

Þrátt fyrir birgðaþrot hafi salan aukist um tæp 12 prósent á milli ára í Vínbúðunum, alls um helming síðustu þrjú árin á undan.

„Við viljum helst af öllu koma bjórnum út á góðu verði í góða hálsa.“