„Þetta kom okkur á óvart en er um leið gríðarlegur heiður að þeir hafi fundið okkur þarna í Grindavík enda Condé Nast tímarit sem einblínir á lúxusferðamennsku,“ segir Hilmar Sigurðsson, einn fjögurra eigenda Bryggjunnar í Grindavík.

Ferðatímaritið Condé Nast hefur sett humarsúpuna á Bryggjunni á lista sinn yfir bestu máltíðir í heimi. „Þarna er iðulega einblínt á tuttugu bestu hótel heims, tíu bestu strendur heims og slíkt,“ segir Hilmar til marks um hversu mikilvæg umsögn tímaritsins sé.

Í umsögn Condé Nast segir að ferðast þurfi um landið á meðan Íslandsdvöl standi yfir. Í Grindavík hafi blaðakonan fengið eina bestu humarsúpu sem hún hafi fengið á lífsleiðinni. Á köldum vetrardögum í New York verði henni trekk í trekk hugsað til veitingastaðarins.

„Við erum með eina af tuttugu bestu máltíðum heims samkvæmt síðunni og í hóp með mörgum af bestu veitingastöðum heims, veitingastöðum með Michelin-stjörnur,“ segir Hilmar sem kveður íslenskt yfirbragð staðarins eiga stóran þátt í upplifuninni fyrir erlenda ferðamenn.

„Það er tenging við netagerðina og höfnina þaðan sem hráefnið kemur. Við erum ekki með marga rétti á matseðlinum en leggjum mikið upp úr að gera þetta vel og nostra við matinn á gamla mátann,“ útskýrir Hilmar.

Uppskriftin að humarsúpunni vinsælu á sér langa sögu að sögn veitingamannsins. Hún komi frá fyrrverandi eigendum veitingastaðarins, netagerðarbræðrunum sem áttu húsið og bryggjuna.

„Þeir voru búnir að þróa þessa uppskrift í mörg ár með heimamönnum og vanda vel til verka. Súpan er gerð alveg frá grunni, eftir ákveðinni aðferðafræði og allt soðið í langan tíma til að nostra við þetta. Það tekur auðvitað sinn tíma en við erum harðákveðnir í að halda í þessa uppskrift,“ segir Hilmar og bætir við að það sé til heimildarmynd um súpuna og bræðurna.

„Það var gerð bíómynd um bræðurna og súpuna sem var meðal annars sýnd á RÚV. Myndin er búin að fá viðurkenningar og hefur verið sýnd víða erlendis og fjallar um þessa súpu og tengslin við höfnina. Myndin á sinn þátt í vinsældum súpunnar og eftirspurninni,“ segir Hilmar. Flestir viðskiptavinirnir séu erlendir ferðamenn en að Íslendingar líti alltaf við inni á milli og þeir séu alltaf velkomnir.

„Við eigum von á um hundrað þúsund manns á veitingastaðinn þetta árið,“ segir Hilmar. „Maður heyrir af því að þetta sé orðið að skyldustoppi fyrir leiðsögumenn í ferðamannabransanum þegar þeir fara um Reykjanesskagann.“