Hulda Hrund Sig­munds­dóttir hjá femínska að­gerða­hópnum Öfgum var gestur Morgunút­varpsins á Rás 2 í morgun og ræddi um­deildan þátt Kveiks sem sýndur var á RÚV í gær­kvöldi. Þar var rætt við Þórir Sæ­munds­son leikara sem ræddi meinta út­skúfun sem hann hefur mátt þola meðal annars fyrir að senda konum myndir af kynfærum sínum.

„Mér fannst þetta á­huga­vert við­tal út frá ein­hliða frá­sögn. Þegar ég horfi á Kveik þá býst ég við á­kveðinni rann­sóknar­blaða­mennsku en þarna var ég bara að horfa á drottningar­við­tal, við mann sem var ekki til­búinn að axla á­byrgð á öllum sínum gjörðum. Sagði bara part af því sem hann var til­búinn að axla og Kveikur ein­hvern veginn vann út frá því. Það er það sem ég er basi­cally að átta mig á núna í morgun þegar ég vakna: Var þetta að gerast, var þetta í al­vöru það sem Kveikur var að senda út frá sér“, segir Hulda Hrund um hvernig þátturinn horfði við sér.

Spurning fyrir Vinnu­mála­stofnun

Hún segir ekki hafa verið farið rétt með stað­reyndir í þættinum. Þar var full­yrt að hann hefði ekki verið „tekinn fyrir“ í met­oo bylgjunni en það sé rangt. „Það komu alveg sögur um hann í met­oo-bylgjunni árið 2017“, segir Hulda Hrund.

„Ég velti því fyrir mér, var þátturinn, af­sakið, svona arfaslakur því enn eina ferðina eiga þol­endur að þrífa upp, eiga þol­endur, eiga aktív­istar, eiga femín­istar að taka boltann og vinna vinnuna. Er það á­stæðan fyrir því að við horfðum á þetta drottningar­við­tal í gær. Það er svona til­finningin sem ég fæ fyrir því.“

Meðal þess sem Þórir ræddi í þættinum í gær var að frá því að mál hans kom upp hafi hann verið at­vinnu­laus, þrátt fyrir að sækja um fjölda starfa. Hulda Hrund segir það spurningu fyrir Vinnu­mála­stofnun en ekki Öfga hvernig standi á því að hann hafi enn ekki fengið vinnu.

„Við fengum þessa spurningu mikið til dæmis í tengslum við KSÍ-málið; eiga þeir að fá að spila á­fram eftir að þeir hafa brotið af sér. Ég get sagt það sama um Þórir, ef þú brýtur af þér þá missirðu á­kveðin mann­réttindi, að fá að vera í sviðs­ljósinu, það er gríðar­lega erfitt fyrir þol­endur að hafa þig alltaf í and­litinu á sér hvort sem það er í sjón­varpi eða leik­húsi eða annað. Vissu­lega á maðurinn rétt á at­vinnu og það er spurning fyrir mann­eskju sem er reyndari á þessu sviði en ég og beina ætti þessari spurningu til Vinnu­mála­stofnun.“

Það veki hins vegar upp spurningar hve hörð við­brögð fólks séu við for­réttinda­skerðingu manna sem sakaðir eru um kyn­ferðis­brot. „Af hverju verður reiði fólks svona of­boðs­lega mikil þegar þessir menn missa þessi for­réttindi?“ segir hún.

„Að hann sé ekki fengið at­vinnu á þessum fjórum árum gæti verið merki þess að at­vinnu­rek­endur leyfa þol­endum að njóta vafans. Að hann hafi ekki fengið at­vinnu í þessi fjögur ár er spurning sem endi­lega beina til Vinnu­mála­stofnunar, af hverju ein­stak­lingur sé at­vinnu­laus í fjögur ár án þess að fá ein­hverja að­stoð. Eins og ein­hverja starf­sendur­hæfingu til að að­stoða þessa mann­eskju við að komast aftur inn á vinnu­markaðinn“, segir Hulda Hrund.

Vilja betrunar­sam­fé­lag

„Ef leikari, fót­bolta­maður eða ein­hver dáður og dýrkaður ein­stak­lingur missir þessi for­réttindi að vera í sviðs­ljósinu þá verður allt bananas. Við erum að biðja um það að þessir menn stígi til hliðar, vinni í sínum málum. Við viljum betrunar­sam­fé­lag. Við viljum að menn sem að hafa, eins og í hans til­felli, verið sekir um sín brot, við viljum að hann leiti sér að­stoðar, við viljum að hann leiti sér hjálpar. Hann sagðist vera að gera það á sínum tíma, hann fór strax í blaða­við­tal, sagði ég sendi hérna typpa­myndir. Svo fór hann á Twitter og gerði burner account þar sem hann var að á­reita þol­endur og femín­ista sem hét Boring Gylfi Sig. Hann var þar að segja „er ekki nauðgunar­menningar­nótt á næsta leiti“. Hann sýndi ekki iðrun á sínum gjörðum og var eins og við köllum að „trolla“. Við viljum að menn leiti sér að­stoðar, leiti sér hjálpar og fag­legrar að­stoðar svo þeir geti aftur stigið fram, tekið pláss í þessari sýni­legu at­rennu sem er sviðs­ljósið“, segir Hulda.

Að­spurð um það hvort hún telji sam­fé­lagið reiðu­búið til að taka aftur við fólki sem brýtur af sér segir Hulda Hrund að fyrir sitt leyti þá vilji hún að fólk sem brotið hefur af sér eigi aftur­kvæmt, gegn því að það gangist við hegðun sinni og ráðist í betrunar­vinnu. „En ef við erum að sjá ein­stak­ling sem er með í­trekuð brot, er með and­fé­lags­lega hegðun og þetta er hans hegðunar­mynstur, þá er það fyrir mitt leyti al­gjört nei.“