Sara María Júlíusdóttir frumkvöðull segir að hugvíkkandi efni geti hjálpað hverjum og einum einstakling. Hún vonast til þess að Ísland geti verið leiðandi á heimsvísu í framþróun hugvíkkandi efna. Sara stóð fyrir ráðstefnu um hugvíkkandi efni í Hörpunni um helgina.
Hún var gestur í Fréttavakt kvöldsins.
„Hugvíkkandi efni eru bæði náttúruleg og kemísk efni, en það eru efni sem hjálpa okkur að komast kannski aðeins úr litla hausnum okkar, víkka hugann og hjálpar okkur að sjá betur og finna fyrir okkur til dæmis,“ segir Sara.
Að hennar sögn geta slík efni gagnast öllum, en það sé auðvitað einstaklingsbundið. „Mannkynið hefur notað þessi efni í árþúsundi til að bæta líf sitt,“ segir Sara.
„Ég myndi segja að hugvíkkandi efni hjálpi hverjum og einum einstakling að finna rótina að því hvað er að í hvers lífi. Það getur verið líkamlegt, andlegt, tilfinningalegt. Það er allur gangur á því,“ segir Sara.
Sara þekkir notkun hugvíkkandi efna á eigin skinni og að hennar sögn breyttu þau öllu fyrir henni.
„Þetta breytti algjörlega lífinu fyrir mér, þá innra lífinu mínu. Hvernig mér leið með sjálfa mig. Hversu örugg ég var í þessu lífi, í þessum heimi, með mig. Að sjá hver ég er og hvað ég er. Meira jafnvægi, meiri ró, friður og sjálfsást. Sjálfsást er það sem hver og einn fær með notkun hugvíkkandi efna,“ segir Sara.
Hugvíkkandi efni er ekki dóp að sögn Söru. Þetta eru efni sem má finna bæði í náttúrunni og innra með okkur. Sem dæmi nefnir Sara efnið DMT, sem er bannað, en það finnst til að mynda bæði í mannslíkamanum og í appelsínum.
Þegar maður borðar appelsínu þá brotnar þetta efni hratt niður, en ef maður tekur þetta inn með kemískum hætti þá dvelja þau lengur í líkamanum, og gera hvað?
„Þá fá þau í rauninni návirkni í líkamanum og DMT sem eru svo virka efnið í Ayahuasca , eru mest bólgueyðandi efni sem þú getur fengið inn í líkamann þinn. Fólk sem er með alls konar mismunandi sjúkdóma drekkur Ayahuasca og sjúkdómarnir fara. Þetta hefur verið ráðgáta í áraraðir í læknavísindunum hvernig þetta er hægt,“ segir Sara.
„Svo er þetta orð hugvíkkandi, þetta opnar hugann okkar. Þar sem ímyndunaraflið þitt endar núna, þar byrjar eitthvað annað sem þú veist ekki einu sinni af. Þú færð að sjá það með hugvíkkandi efnum,“ segir Sara.
Sara segir að hugvíkkandi efnum sé mætt með þröngsýni og fordómum, en að margir séu spenntir fyrir möguleikunum sem efnin opna.
„Ég myndi segja að læknastéttin sé mjög spennt, af því að það er það mikið af rannsóknum komnar. Læknar geta ekki afneitað rannsóknum sem eru komnar. Þetta er það sem koma skal og þeir vita það. En við þurfum að fara varlega,“ segir Sara.
Aðspurð hvort þessi efni henti öllum, þá svarar Sara að það fari eftir hverjum og einum. Fólk þarf að vera skynsamt og fara varlega.
„Þetta er svo spennandi og þá vilja allir þessa töfralausn því þetta gerir svo mikið. En þetta getur líka gert of mikið ef þú ert ekki með rétta utanumhaldið. Eins og þú getur ekki farið á spítala og haft engar hjúkrunarkonur og fólk að hugsa um þig. Við þurfum að vera með opinn huga, en líka að vera skynsöm og fara varlega og tala saman og fræða okkur,“ segir Sara.
Hún vonast eftir að Ísland verði leiðandi afl í framþróun hugvíkkandi efna í heiminum. Víða um heim er verið að lögleiða hugvíkkandi efni, til að mynda í Bandaríkjunum.
„Þetta er að ganga hægt og rólega. Þetta er í framþróun, en það væri spennandi ef við Íslendingar myndum taka smá forystu og vera leiðandi. Auðvitað er það spennandi fyrir fólk eins og mig. Ég veit að við getum gert það og gert það vel. Það finnst mér,“ segir Sara.
Viðtalið við Söru er hægt að sjá í heild sinni hér fyrir neðan.