Yesmine Olsson var ættleidd frá Srí Lanka af sænskum hjónum. Hún segist í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins, hafa farið að íhuga upprunann meira þegar hún sjálf eignaðist börn.

Yesmine hefur enn ekki heimsótt Srí Lanka en vinkona hennar sem er búsett þar bauðst til að hjálpa henni að leita blóðforeldra sinna. Sjálf hafði Yesmine ekki hugsað mikið út í það en hún ólst upp í litlu sjávarþorpi í Svíþjóð ásamt foreldrum sínum og systur.

„Ég hef haft það rosalega gott svo það var kannski ekki fyrr en síðar á lífsleiðinni að ég fór að hugsa út í það. Ég fór meira að spá í þessu þegar ég sjálf eignaðist mín börn,“ segir hún en Yesmine er gift Arngrími Fannari Haraldssyni sem gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Skítamóral og eiga þau börnin Harald Fannar, 24 ára, sem Arngrímur átti fyrir, og saman eiga þau svo Ronju Ísabel, 16 ára, og Óliver Emil, 8 ára.

„Ættleiðingin hefur að mörgu leyti stjórnað ferðalagi mínu. Ræturnar hafa stýrt mér. Þú sérð að hér er ég – að elda indverskan mat og dansa Bollywood,“ segir hún og hlær.

Ég fór meira að spá í þessu þegar ég sjálf eignaðist mín börn

„Það er kannski skrítið að ég hafi aldrei gert neitt í þessu. Ég er mjög náin pabba mínum,“ segir Yesmine en móðir henn féll frá fyrir 15 árum síðan.

„Ég hef alltaf verið svo ánægð með mitt en ég viðurkenni að þættirnir Leitin að upprunanum hafa kveikt svolítið í mér. En ég sé þetta frá tveimur hliðum. Það er erfitt að fara af stað í svona ferðalag og vita ekki hvað maður fær. Mögulega gæti maður fest í tveimur heimum. Það er alltaf meira undir niðri en sést á yfirborðinu en auðvitað hefur mig langað að vita meira og það er ekkert útilokað að ég geri það. Hvernig sem fer þá snýst þetta um að finna sátt við það sem maður er, og ég er sátt.“