Margmenni dreif sig í gær í átt að gosstöðvunum í Meradal til að fylgjast með stórkostlegu sjónarspili sem þar er hafið að nýju.

Tæpir tíu mánuðir eru liðnir frá því að eldgosinu í Geldingadölum lauk eftir um hálfs árs gostímabil. Eftir harða jarðskjálftahrinu dagana á undan braust kvika loks upp á yfirborðið að nýju, að þessu sinni í gilskorningi í Meradölum, nokkru norðar en gosstaðurinn í fyrra var.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur var í Meradölum þegar Fréttablaðið ræddi við hann undir kvöld í gær.

„Ég er bara hérna við gíginn,“ svaraði Þorvaldur spurður hvort hann væri mættur á svæðið. Sagði hann gilskorninginn þar sem nú gýs hafa verið dýpri áður en gaus í fyrra.

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur
Mynd/SigtryggurAri

Morgundagurinn segir til um framhaldið

„Þessi gilskorningur mun fyllast tiltölulega fljótt,“ sagði Þorvaldur og tók þannig í sama streng og eldfjallafræðingurinn Ármann Höskuldsson sem Fréttablaðið ræddi einnig við í gær. „Eftir það er spurning hvort hraunið renni í suður í átt að Meradölum og þá hvort það nær að komast upp úr þar og áfram niður úr,“ sagði Þorvaldur.

„Staðsetningin er þannig að gosið þyrfti að standa yfir í langan tíma svo það gæti farið að teygja sig í einhverja innviði sem skipta máli. Sem betur fer,“ bætti Þorvaldur við „Ef hraunið kemst út héðan, þá þarf það að byggja sig upp töluvert til þess að komast yfir hæðina. Þetta hraun er ekki að fara neitt langt en við vitum það betur á morgun [í dag].“

Gossprungan var tvö til þrjú hundruð metrar í gær.
Mynd/AntonBrink

Fólk strax komið á staðinn

Talsvert af fólki var á gosstöðvunum í gær og töldu björgunarsveitir vera yfir þúsund manns þar seinni partinn. „Það er töluvert af fólki hérna og eykst bara jafnt og þétt,“ sagði Þorvaldur sem kvað hópinn vera dreifðan um svæðið.

Á fundi hjá Almannavörnum í gær var bent á að gönguleiðin að gosstöðvunum væri talsvert lengri en að svæðinu í fyrra og að auki grýtt. Fólk þyrfti að vera vant og vel búið í slíka göngu. Auk þess þyrfti að vera á varðbergi vegna gass frá eldstöðinni.

Göngufólk lagði strax leið sína að nýja gosinu í gær.
Mynd/AntonBrink

Tekur dágóðan tíma að fylla Meradalina

Ítrekaði Þorvaldur að betur muni sjást í dag hver þróunin verði. „Eins og ég segi; ef það kemst upp á hraunbeðurnar frá 2021 sem eru í Meradölum þá fer það í þá áttina. Þá tekur það dágóðan tíma að fylla Meradalina. En varðandi að þetta byggi sig upp og stefni í norður, það er líka töluvert í það,“ sagði Þorvaldur sem kvað enga stórhættu á ferðum.

Mynd/AntonBrink

„Það er dalverpi þarna í norðurátt sem það þarf að fylla fyrst. En gosið yrði að standa í dágóðan tíma og tekur eflaust vikur, ef ekki mánuði, áður en við förum að sjá einhverja mögulega hættu gagnvart innviðum. En það er líka miðað við að gosið haldi áfram eins og það er og það verði engar breytingar,“ undirstrikaði eldfjallafræðingurinn.

Í gær gaus á sprungu sem var um þrjú hundruð metrar. „Væntanlega dregur hún sig eitthvað saman eins og síðast og myndar kannski tvo gíga,“ sagði Ármann Höskuldsson.