„Nú verða sagðar fréttir! Góðar fréttir!“ segir sjónvarpskonan Hugrún Halldórsdóttir sem fagnar nú merkum áfanga. Í færslu á Facebook skýrir Hugrún frá því að eftir tuttugu ára þrautagöngu með mígreni hafi hún nú verið laus við höfuðverk í heilan mánuð - þökk sé vísindunum.

„Nú í júní átti ég vafasamt afmæli sem fór framhjá flestum þar sem ég hélt alls ekki upp á það, af skiljanlegum ástæðum. Þá voru liðin 20 ár frá fyrsta mígreniskastinu. Eins og þeir sem þekkja mig vita fór partíið fljótt úr böndunum og ég eignaðist lífsförunaut sem þótti svo vænt um mig að hann ákvað að ganga mér við hlið alla daga. Tók óspurður dag- og næturvaktir og þóttist ekki einu sinni þurfa á jóla- eða sumarfríi að halda,“ skrifar Hugrún.

Segist Hugrún geta skrifað þríleik um þrautagöngu sína með mígreninu í heilbrigðiskerfinu. Nú einblíni hún á stærsta sigurinn á ferlinum: „Við mígrenið hættum saman (eða erum allavega on a break) og nú fagna ég mánaðarafmæli. Mánaðarafmæli sem mig langar að halda upp á með öllum á landinu, í heiminum og bara öllum í þessu sólkerfi og beyond! 30 höfuðverkjalausir dagar! 30 dagar án heilaþoku! 30 dagar án verkjalyfja! 30 dagar þar sem ég get setið eins lengi og ég vil! 30 dagar af af af… listinn er nánast ótæmandi,“ segir í færslunni.

Hugrún segir að á 20 ára afmæli sínu með mígreninu í júní í sumar hafi orðið risavendipunktur. Þá hafi hún byrjaði í mígreniserfðarannsókn á vegum Ólafs Árna Sveinssonar taugalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar og fengi líftæknilyfið Erenumab (Aimovig).

„Þá hafði ég sem betur fer unnið mikla vinnu með Hildi Kristínu [Sveinsdóttur] til að ráða andlega við krónísku verkina, róa taugakerfið og búa til nýjar taugabrautir með appi, sem ég get ekki mælt nægilega vel með, Curable. Þá og þegar var ég farin að sjá allt með miklu skýrari augum, búin að taka alls konar til í lífinu og fannst ég mikið betur í stakk búin að lifa með því sem ég hélt að væri hlutskipti mitt í lífinu,“skrifar Hugrún.

Þá segir Hugrún lífið hafa tekið óvænta u-beygju og líftæknilyfið byrjað að virka. „Þetta er svo stórt að heilinn er enn að átta sig og býst oft við að vakna af draumi eða hreinlega verða fyrir strætó sem… gæti hæglega gerst, en á meðan ætla ég að njóta þess sem er. Ég er enn með kunnuglega stoðkerfisverki, sem ég ræð 110 prósent við enda með meirapróf, en trúi því einnig að líkaminn þurfi einungis örlítinn tíma til að anda og vinna úr síðustu árum,“ segir Hugrún í færslunni.

Þakkar Hugrún sem hafa stutt hana. „Svo verð ég að ráða ljóðskáld til að koma þökkum mínum til Íslenskrar erfðagreiningar og Ólafs Árna skilmerkilega frá mér. I have no words. Áfram rannsóknir og framfarir í vísindum.“