Helgu Völu Helgadóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, hugnast ekki hugmyndir Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um stofnun opinbers hlutafélags utan um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða.

„Ég held að við séum alveg búin að átta okkur á því að þessi opinberu hlutafélög eru algjör bastarður í kerfinu,“ segir Helga Vala um slíkar hugmyndir ráðherrans.

„Þau fyrirtæki sem hafa verið skráð sem ohf. hafa sýnt að umgjörðin er óhagstæð þar sem ríkið ber allar skyldurnar en hefur svo lítið vald til þess að viðhafa inngrip ef í óefni stefnir,“ segir hún. „Það er eitthvað sem fær mann til að hugsa hvort við þurfum raunverulega fleiri opinber hlutafélög.“