„Nú held ég að við séum komin með góðan efnivið og það sé kominn tími til að hefja uppbyggingu í Laugardalnum,“ segir Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ), en hann afhenti Lilju Dögg Alfreðsdóttur íþróttamálaráðherra skýrslu um þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum.

Segir Freyr meðal annars að eitt af aðalstefjum skýrslunnar sé að FRÍ vilji stjórna tímanum sem sambandið fær, en eins og staðan er núna ræður Knattspyrnusamband Íslands í raun hvenær frjálsíþróttafólk fær að æfa á Laugardalsvelli.

Hópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ef þjóðarleikvangur í knattspyrnu verður áfram á Laugardalsvelli sé framtíð frjálsíþróttastarfs best borgið á nýjum leikvangi fyrir norðan Suðurlandsbraut, austan frjálsíþróttahallar við Engjaveg.

Mannvirkið myndi þannig tengjast núverandi frjálsíþróttahöll, öðrum íþróttamannvirkjum sem og öðrum opnum svæðum í Laugardal. Starfshópurinn sér fram á að mannvirkið verði vel nýtt fyrir alþjóðlegt keppnishald og stærri mót á vegum Frjálsíþróttasambands Íslands og Íþróttasambands fatlaðra, æfingar afreksmanna, æfingar barna, unglinga og annarra í hverfafélögum í Reykjavík, en einnig sem möguleg aðstaða fyrir afreksíþróttamiðstöð í Laugardalnum, auk rannsókna, þjálfunar og kennslu í skólum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, íþróttamálaráðherra
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Frumáætlanir gera ráð fyrir að stofnkostnaður vegna slíks þjóðarleikvangs sé um tveir milljarðar króna.

„Það er gleðilegt að fram sé komin þessi sameiginlega niðurstaða. Það hefur sýnt sig undanfarin misseri hvað það er mikilvægt að frjálsíþróttafólk geti æft og keppt, óháð öðrum íþróttum og viðburðum. Nú erum við með einstakt tækifæri til að tryggja það til framtíðar,“ segir Freyr og tekur fram að hann sé þakklátur fyrir frumkvæði Lilju í þessu máli.

Framtíðarsýn Laugardals er því farin að taka á sig mynd, en eins og trúlega flestir vita er margt sem þar stendur komið á tíma. Frá því að reglugerð um viðurkenningu þjóðarleikvanga í íþróttum var sett árið 2018 hefur fjölbreyttri greiningarvinnu verið hrundið af stað vegna uppbyggingar slíkra innviða. Fyrir liggja tillögur starfshóps um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir og unnið er eftir fjórum sviðsmyndum um nýjan Laugardalsvöll.

Lilja sjálf var hrifin af ástríðunni í orðum Freys og benti á að til að eiga íþróttafólk í fremstu röð á heimsvísu verði að bæta úr aðstöðumálum. Fram undan sé að tryggja fjármögnun, ráðast í hönnun og grípa skófluna.

„Fólkið sem er að vinna við íþróttir brennur fyrir að bæta aðstöðu og það er okkar hlutverk að vinna með væntingar og hvað er raunhæft. Núna erum við komin með heildarmyndina um þjóðarleikvanga, bæði inniíþróttir, frjálsar og knattspyrnu. Nú verður þessi vinna tekin saman og séð hvað er hagkvæmt og hvernig við látum þetta ganga allt upp,“ segir Lilja.

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari