Meirihluti kjósenda í sameinuðu sveitarfélagi Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps hafnaði sitjandi meirihlutafulltrúum sveitarfélaganna tveggja í kosningunum um helgina.

Tveir listar voru í framboði, E-listi og K-listi. K-listann leiddi oddviti Skútustaðahrepps, Helgi Héðinsson, sem jafnframt er varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn. Listinn fékk 47 prósent og fjóra menn kjörna. Nýja fólkið, E-listinn, fékk 53 prósent og fimm menn kjörna.

Þar var fólk í efstu sætum sem ekki hefur setið í sveitarstjórnum í héraðinu undanfarin ár.

Gerður Sigtryggsdóttir, fulltrúi af E-lista, segir að meirihlutar úr báðum sveitarfélögum ásamt minnihluta í Þingeyjarsveit hafi sameinast um að bjóða fram saman undir merkjum K-listans. Því sæti útkoma kosninganna tíðindum.

Gerður segir K-listann hafa goldið fyrir boðaðar breytingar sem hefðu þýtt að þrír sviðsstjórar væru ráðnir og þeir farið með vald sveitarstjóra ásamt einum kjörnum fulltrúa í stað eins sveitarstjóra, með auknu flækjustigi og fjárútlátum.

„Þetta hefði orðið gjörólíkt hefðbundinni stjórnsýslu sveitarfélaga,“ segir Gerður sem kveður fulltrúa Íbúalistans þó hlakka til að starfa með fulltrúum minnihlutans. n