„Þetta var á­gætur fundur. Við fórum yfir stöðuna og greindum hana. Síðan voru viðraðar hug­myndir að mögu­legum breytingum á samningnum,“ sagði Aðal­steinn Leifs­son ríkis­sátta­semjari eftir fund samninga­nefnda Flug­freyju­fé­lags Ís­lands (FFÍ) og Icelandair í dag. Fundurinn var sá fyrsti sem haldin hefur verið frá því að fé­lags­menn FFÍ felldu nýjan kjara­samning, sem nefndirnar gerðu, í at­kvæða­greiðslu á mið­viku­daginn.

Nefndirnar undir­rituðu samninginn hjá ríkis­sátta­semjara þann 25. júní síðast­liðinn eftir langar og strangar við­ræður. Hann var svo felldur með tæp­lega 73 prósent at­kvæða í at­kvæða­greiðslu FFÍ.

„Þetta eru náttúru­lega mjög erfiðar við­ræður; hafa verið það allan tímann og eru það á­fram. Þetta er þröng staða sem er uppi,“ segir Aðal­steinn. Hann hefur boðað til nýs fundar næsta þriðju­dag klukkan 14.

„Í dag voru viðraðar á­kveðnar hug­myndir og vonandi eigum við svo sam­tal um ein­hverjar leiðir. Báðir aðilar hafa hags­muni af að ná á­sættan­legum samningi og sátt og vonandi getum við rætt mögu­legar leiðir til þess,“ segir hann. „En staðan er þrátt fyrir það mjög þröng.“

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Fréttablaðið/Ernir