Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir hugmyndina um að unglingar fresti bílprófi og fái árskort í staðin hafi ekki verið rædd innan veggja Strætó.

Þetta segir Guðmundur Heiðar í samtali við Vísi.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að ein hugmynd í skýrslu um aðgerðir gegn kolefnisfótspori höfuðborgarsvæðisins sé að bjóða ungu fólki að fresta því að taka bílpróf gegn árskorti í Strætó.

Jón Kjartan Ágústsson, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við Fréttablaðið að tillagan sé vissulega áhugaverð. Varast beri að að draga of miklar ályktanir af henni enda sé þetta ennþá bara á hugmyndastigi. „Þetta er ekki eiginleg aðgerðaáætlun sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ætla að grípa til heldur dæmi um aðgerð sem þau gætu gripið til.“

Í samtali við Vísi segir Guðmundur Heiðar að hugmyndin sé skemmtileg og þetta sé alltaf spurning um útfærslu. Ákvörðunin þyrfti að vera pólitísk og henni þyrfti að fylgja fjármagn.