Búið er að samþykkja framkvæmd á hugmynd teiknistofunnar ALARK arkitektar að fræmkvæmdum á Orkuhússreitnum. Þrjár arkitektastofur tóku þátt í hugmyndasamkeppni á vegum borgarinnar og fasteignafélagsins Reita og stóð ALARK uppi sem sigurvegari.

Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar en þar segir að endanleg skipulagsvinna geti nú hafist og uppbygging verði tímasett bráðlega. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á lóðinni geti hafist innan tveggja ára frá því að breyting á deiliskipulagi hefur verið samþykkt.

Tillagan gerir ráð fyrir 450 íbúðum auk atvinnuhúsnæðis. Fyrirkomulag byggðar er 4-9 hæða byggingar sem mynda randbyggð með skjólgóðum görðum. Þá segir í umsögn dómnefndar að skipulagshugmyndin sé skýr og bjóði upp á gott heildaryfirbragð íbúða í aðlaðandi umhverfi.