Þó svo barir séu lokaðir og fólk sé beðið að draga úr mannamótum er engin ástæða til að lifa meinlætalífi. Það er sannarlega ekki bannað að hafa það gott heima fyrir og aldrei verið betri ástæða til að halda einskonar sjálfshátíð með góðum og girnilegum mat. Hvernig væri að bæta aðeins í; kveikja á kertum, dekka fallega upp og bera fram dýrindis máltíð fyrir fjölskylduna?

Sniðin að heima huggulegheitum


Einn vinsælasti matarbloggari landsins Berglind Hreiðarsdóttir sem heldur úti síðunni gotteri.is gaf á dögunum út bókina; Saumaklúbburinn. Bókin inniheldur 140 girnilegar uppskriftir og því var tilvalið að fá Berglindi til að gefa lesendum nokkrar girnilegar uppskriftir til að gera vel við sig um helgina.


„Bókin var unnin á Covid tímum í vor og kemur út á nýjum Covid tímum nú í haust. Hvað getur maður sagt, það er alltaf betra að horfa á jákvæðu hlutina í lífinu svo núna er til dæmis hægt að eyða meiri tíma heima við og með þeim sem manni þykir vænt um.

Ekki eru ferðalög erlendis á dagskrá á næstunni og og stórar veislur í algjöru lágmarki svo mín ráð eru til fólks að njóta þess bara að vera heima, elda góðan mat fyrir sína nánustu, kveikja á kertum og hafa það huggulegt. Bókin er einmitt sérsniðin að slíkum þörfum og geymir ógrynni af fjölbreyttum uppskriftum fyrir huggulegar stundir,“ segir Berglind.

Himneskt humarpasta með heimabökuðu hvítlauksbrauði.

Himneskt humarpasta

500 g Dececco pastaskrúfur
2 x askja skelflettur humar
1 laukur
3 hvítlauksrif
500 g kirsuberjatómatar
600 ml rjómi
2 lúkur rifinn parmesanostur
3 msk.söxuð steinselja
1 tsk. humarkraftur
Smjör og ólífuolía til steikingar
Salt, pipar og hvítlausduft


Affrystið humarinn, skolið og þerrið.
Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
Steikið lauk og hvítlauk upp úr smjöri þar til það fer aðeins að mýkjast og bætið þá humrinum saman við.
Kryddið með salti, pipar og hvítlauksdufti eftir smekk og setjið í skál um leið og humarinn er tilbúinn.
Bætið þá ólífuolíu á pönnuna og setjið tómatana saman við (skerið þá fyrst til helminga).
Steikið þá við meðalhita þar til þeir mýkjast aðeins og saltið og piprið.
Hellið nú rjómanum yfir tómatana ásamt parmesanosti, steinselju og humarkrafti.
Kryddið til með salti, pipar og hvítlausdufti.
Þegar pastað er tilbúið má bæta því út í sósuna ásamt humrinum og ná upp smá hita að nýju.
Best er síðan að bera pastað fram með rifnum parmesan og hvítlauksbrauði (sjá uppskrift að neðan).


Hvítlauksbrauð


1 stórt baguette brauð
100 g smjör
2 hvítlauksrif
Salt, pipar og hvítlauksduft
Rifinn ostur


Skerið brauðið eftir því endilöngu og raðið á bökunarplötu.
Bræðið smjör við vægan hita, rífið hvítlauksrifin út í pottinn og kryddið eftir smekk.
Penslið vel af smjöri á brauðið og rífið næst ost yfir allt saman.
Hitið við 200°C í um 7 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn.
Skerið niður í sneiðar og berið fram með pastanu.

Bakaður ostur með grilluðum paprikum og pestó

Bakaður ostur með grilluðum paprikum og pestó

1 x Dala Auður
3 msk. Sacla pestó með „Roasted pepper“
Sacla Peperoni grigliati (grillaðar paprikur í olíu)
Furuhnetur
Fersk basilíka

Meðlæti


Baguette, kex, hnetur, hráskinka, vínber eða annað sem ykkur dettur í hug.

Takið ostinn úr umbúðunum og leggið í eldfast mót eða á bökunarpappír.Setjið vel af pestó ofan á hann, skerið grillaðar paprikur niður og setjið þar næst ásamt furuhnetum.Bakið við 190°C í um 10 mínútur.Stráið smá ferskri basilíku yfir og berið fram með góðu brauði, kexi og öðru meðlæti.

Epladraumur með ís og karamellusósu.

Epladraumur

Uppskrift dugar í 6-8 form eftir stærð


330 g smátt skorin epli
(um 4-5 stykki)

150 g Milka-Daim súkkulaði
3 msk. kanelsykur
90 g hveiti
g púðursykur
100 g smjör við stofuhita (+ meira til að smyrja með)
50 g tröllahafrar
Ís og karamellusósa ofan á

Smyrjið lítil eldföst mót með smjöri (eða eitt stórt).

Saxið súkkulaðið gróft niður og blandið saman eplum, súkkulaði og kanelsykri í stóra skál.

Skiptið eplablöndunni niður í formin og útbúið hjúpinn.Blandið saman hveiti, púðursykri, smjöri og tröllahöfrum.

Setjið vel af blöndu yfir hvert form með því að losa deigið aðeins niður með fingrunum.

Bakið í 180° heitum ofni í um 25 mínútur og útbúið karamellusósuna á meðan (sjá uppskrift að neðan).

Leyfið hitanum aðeins að rjúka úr og setjið þá ís og karamellusósu yfir eftir smekk.


Karamellusósa


1 poki Dumle karamellur (120 g)
4 msk. rjómi

Setjið saman í pott og hrærið við miðlungs hita þar til karamellurnar eru bráðnaðar. Leyfið aðeins að kólna niður og berið fram með epladraumnum ásamt ís.