45 ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur á Suðurlandi í gær og var stærstur hluti þeirra erlendir ferðamenn. Sá sem ók hraðast var mældur á 152 kílómetra hraða á Mýrdalssandi en hann kvaðst hafa gleymt sér þar sem hann hafi verið svo hugfanginn og snortinn af landslaginu.

Lögreglan á Suðurlandi segir það hætt að heyra til tíðinda að erlendir ökumenn séu stöðvaðir vegna hraðaksturs. Meirihluti þeirra sem teknir eru í umdæminu er erlendir ferðamenn. 26 af þeim 45 ökumönnum sem voru kærðir í gær voru teknir á vegarkaflanum á Mýrdalssandi milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs og greiddu þeir samtals rúmlega 1,6 milljónir króna í sekt.

Þrír ökumenn voru þá mældir á sviptingarhraða; sá sem var tekinn á 152 kílómetra og var svo hugfanginn af landslaginu og tveir til viðbótar sem óku á 146 og 147 kílómetra hraða. Lögreglan segir það ekki lengra síðan en síðastliðinn föstudag að erlendir ferðamenn veltu jeppabifreið sinni á þessum vegarkafla á þjóðvegi 1 í Eldhrauni skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur.

Ekki er vitað hvort hraðakstur hafi átt þátt í umræddu slysi sem er til rannsóknar hjá lögreglu en enginn úr slysinu er í lífshættu.

Ef litið er á heildarsektargreiðslu þessara 45 ökumanna sem kærðir voru fyrir hraðakstur í gær nemur sektarfjárhæðin samtals um 3 milljónum króna.

Það er því miður hætt að heyra til tíðinda að erlendir ökumenn séu stöðvaðir vegna hraðaksturs hér á landi. Gærdagurinn...

Posted by Lögreglan á Suðurlandi on Tuesday, August 13, 2019