Innlent

Davíð Þór sýnir „hugar­far dópistans“

Arn­þrúður Karls­dóttir segir máli séra Davíðs Þórs Jóns­sonar og níð­vísu sem hann orti um hana ekki lokið. Hún vill vita hvernig biskup, kirkju­mála­ráð­herra og fleiri ætli að bregðast við. Hún segir „hugar­far dópistans“ ein­kenna hegðun prestsins og hann þurfi mikla hjálp.

Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson vönduðu Davíð Þór ekki kveðjurnar í Útvarpi Sögu í morgun. Fréttablaðið/Samsett

Símatími Útvarps Sögu logaði í morgun þegar þáttastjórnandinn Pétur Gunnlaugsson og dyggir hlustendur og innhringjendur brugðust harkalega við fregnum af níðvísunni Arnþrúður er full. Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju orti braginn sem til stendur að gefa út á hljómplötu pönksveitarinnar Austurvígstöðvarnar og Vísir.is sagði frá á föstudag.

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Sögu og viðfang kviðlings Davíðs Þórs, blandaði sér í umræðuna og upplýsti að hún teldi ljóst að Davíð Þór hefði gerst brotlegur við lög um opinbera starfsmenn og að málinu væri síður en svo lokið.

Pétur Gunnlaugsson ræddi við Arnþrúði sem sagði árásir Davíðs Þórs á hana og útvarpsstöðina ekki vera nein nýmæli. Þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hann „sóknarpresturinn í Laugarneskirkju, starfsmaður þjóðkirkjunnar og opinber starfsmaður“ gerir þetta.

„Hann hefur nú birst hann Davíð Þór bæði í útvarpsviðtölum ítrekað bæði á Rás 2 og Bylgjunni og síðan á Harmageddon og þar talaði hann um það að það ætti að taka súrefni frá okkur. Þannig að þetta er svona mjög ósmekklegt af manni í þessari stöðu í rauninni að gera svona.“

Arnþrúður sagðist aðspurð aldrei hafa ráðist persónulega að Davíð Þór en hún hafi svarað honum og þau tekist á „út af viðtali hérna þegar hann kallaði okkur ídjóta og eitthvað fleira.“

Útrás fyrir hatur og ofbeldisþörf

Pétur tók upp þráðinn frá því á föstudag þegar hann og alþingismaðurinn Ólafur Ísleifsson fordæmdu kveðskapinn. Pétur vandaði Davíð Þór heldur ekki kveðjurnar í morgun og sagði meðal annars að Davíð Þór væri mjög ósáttur við hvernig rætt er um Evrópusambandið og Íslam á útvarpsstöðinni. „Þá telur hann sig hafa rétt á því að vera með svívirðingar um stöðina, þig og okkur. Þetta er svona átylla sem hann notar til að fá útrás fyrir hatur sitt og ofbeldisþörf.“

Þá bætti Pétur við að hann „er bara haldinn svo mikill heift og hatri,“ sem Arnþrúður tók undir og sagði „gríðarlegt hatur í þessu og það sem slær mann mest er að þetta skuli vera starfandi sóknarprestur í Laugarneskirkju.“

Hugur Arnþrúðar er ekki síst hjá sóknarbörnum Davíðs Þórs og henni finnst ekki fara saman að maður sem er „svona illa staddur í lífinu sem lætur það eftir sér að gera svona“ skuli vera með æskulýðsmessur, fermingarfræðslu og annað slíkt.

„Því hann er ekki bara kannski að ráðast á mig heldur líka á þjóðþekkta menn eins og Bjarna Benediktsson og Sigríði Andersen, Ásmund alþingismann og forsætisráðherrann. Hann virðist sækja í það að tína til þjóðþekkt fólk. Níða það í þeirri von að hann geti auglýst sig upp og skotið sér inn í umræðuna við hliðina á þessum aðilum.“

Hugarfar dópistans

Arnþrúður sagði jafnframt að það væri sammerkt með þeim sem „hafa haft hæst“ í árásum á Útvarp Sögu að þetta „eru menn sem eru mjög illa farnir af dópneyslu og óreglu og hafa klúðrað mörgu í sínu lífi og þá eru þeir að reyna einhvern veginn að upphefja sig með því að ráðast að öðrum. Þetta er eiginlega ekta hugarfar dópistans ef svo má segja.

Þetta er hugarfar dópistans. Þeir lifa í falskri veröld og þörfin fyrir að eyðileggja líf annarra og leggja veröld annarra í rúst er óendanleg.“ Hún bætti við að margir könnuðust við slíka hegðun og „taka þessu þar af leiðandi þannig. En svona aðilar þurfa mikla hjálp.“

Arnþrúður sagði árásirnar sem útvarpsstöðin og hún sjálf sem „táknmynd stöðvarinnar“ væru skýrt dæmi um þetta „innbyggða hatur sem brýst út þegar menn eru búnir að eyðileggja líf sitt. Þá ráðast þeir á aðra. Þeir þola ekki að öðrum vegni vel, þola það ekki að fólk nái árangri.“

Hún benti einnig á að sér þætti þessar árásir ekki síst einkennilegar í ljósi #MeToo þar sem þeir sem fari harðast gegn henni eru karlmenn sem tali hátt um kvenréttindi og nefndi auk Davíðs Þórs þá Gunnar Waage og Bubba Mortens. „Og allir til að auglýsa sig upp en eiga þetta sameiginlegt. Þeir eiga sameinlega mjög skemmdan bakgrunn. Alveg gríðarlega skaddaðan.“

Þá sagði Arnþrúður að framkoma Davíðs Þórs „segir bara miklu meira um Davíð Þór heldur en nokkurn tíma eitthvað um mig. Ég er kristin manneskja. Ég er í þjóðkirkjunni og ég vil ekki að prestur þjóðkirkjunnar komi svona fram við mig eða aðra. Það er bara alveg óásættanlegt.“

Í framhaldinu spurði hún svo: „Ætlar þjóðkirkjan að sætta sig við þetta? Ætlar biskup að sætta sig við þetta? Ætlar sóknarnefndin Laugarneskirkju að sætta sig við þetta? Ætlar kirkjumálaráðherra að sætta sig við þetta?“ Þetta væri eitthvað sem ætti eftir að taka á.

Arnþrúður áréttaði að um sóknarprestinn giltu lög um opinbera starfsmenn og hann geti ekki hegðað sér eins og honum sýnist í frítíma sínum. Þar fyrir utan viti hann betur þegar hann yrkir um að hún sé full.

„Ég er manneskja sem nota aldrei áfengi til dæmis. Þannig að það er það sem er svo grimmdarlegt í því að sjá hvernig er verið að reyna að meiða sem mest.“ Þetta sé dálítið fyndið í því ljósi en „svakalega svívirðilegt og miklar lygar.“

Og ljóst má vera að Davíð Þór hefur ekki heyrt það síðasta um pönkkveðskap sinn þar sem Arnþrúður kvaddi Pétur og hlustendur með þessum orðum:

„Þetta mál er ekki búið.“

Séra Davíð Þór Jónsson er meðlimur pönkbandsins Austurvígstöðvarnar og helsti textahöfundur. Hér má heyra lagið Arnþrúður er full eftir klerkinn en til stendur að gefa lagið út á hljómplötu ásamt fleiri ádeilutextum Davíðs Þórs.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Vilja að biskup reki „klámklerkinn“

Lífið

Jón Gnarr sver Elísu af sér

Lífið

Arnþrúður hvikar hvergi og segir Gnarr vera Elísu

Auglýsing

Nýjast

Tekinn aftur á ríflega 130 á Reykjanesbraut

Lög­reglan leitaði að „Stúfi“ í Bú­staða­hverfi

Segja asbest í barnapúðri Johnson & Johnson

Tekinn á 132 með vélsleðakerru í eftirdragi

Kældi brennandi bíl með snjó

Glæ­ný Boeing-þota nauð­lendir í Íran

Auglýsing