Í það minnsta 500 fuglar hafa fundist dauðir við vindorkuverið á eyjunni Smöla í Noregi á síðustu fjórtán árum. Þar af eru yfir hundrað ernir. Á síðustu tveimur árum hafa fundist fimm dauðir ernir á svæðinu. Þetta kemur fram á vef NRK. Kristinn Haukur Skarphéðinsson, sviðsstjóri dýrafræði og fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir að líklega sé um enn fleiri fugla að ræða og að mikilvægt sé að huga að fuglalífi á svæðum þar sem fyrirhugað er að setja upp vindmyllur.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson.

„Þetta er vel þekkt vandamál alls staðar og ákveðnar tegundir eiga það sérstaklega á hættu að lenda í vindmyllum,“ segir Kristinn Haukur og tekur dæmi um ránfugla. „Það þarf að taka tillit til þess hvaða tegundir eru á svæðinu þegar vindmyllurnar eru settar niður,“ bætir hann við.

„Varðandi vindmyllur hér á landi þá hafa náttúrulega tugir staða verið nefndir sem mögulegir vindmyllustaðir og þeir eru allt frá því að vera á fuglaríkustu svæðum landsins og upp í há fjöll þar sem ekki er von á mörgum fuglum, en þetta er flest á byrjunarreit hjá okkur,“ segir Kristinn Haukur.

Fyrirhugað er að setja niður um þrjátíu vindmyllur á Mosfellsheiði, en í lok síðasta árs greindi Fréttablaðið frá því að stjórn Svifflugfélags Íslands hefði áhyggjur af því að vindmyllurnar gætu verið hættulegar svifflugmönnum og myndu jafnvel eyðileggja möguleikann til flugs á svæðinu. Aðspurður hvort fyrirhugaðar vindmyllur á Mosfellsheiði myndu hafa áhrif á fuglalíf, segir Kristinn Haukur að þar skipti staðsetningin höfuðmáli.

„Það eru svæði þarna í jaðrinum sem eru mjög fuglarík en svo er minna á háheiðinni. En það þarf einnig að huga að bæði fuglum sem hreinlega eiga heima á svæðinu og svo fuglum sem eiga leið þar um. Þegar farleiðir liggja í gegnum svæðið aukast líkur á því að fuglar fari í vindmyllurnar,“ segir Kristinn Haukur.

Hann segir vilja bæði hjá yfirvöldum hér á landi og hjá Náttúrufræðistofnun til að huga vel að fuglalífi við uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi. Hægt sé að fara ýmsar leiðir en byggja þurfi þær á rannsóknum. „Nýlega var til að mynda birt niðurstaða tilraunar þar sem borin voru saman tvö svæði í Bandaríkjunum þar sem mikið er af svokölluðum gullörnum. Á öðru svæðinu var búnaður sem nam ferðir fuglanna og með honum var hægt að draga um einhver sextíu prósent úr árekstrum. Það er verið að skoða alls konar svona búnað og viðvaranir,“ segir Kristinn Haukur.

Aðspurður um hvers konar viðvaranir hægt sé að nota fyrir fugla segir hann ýmislegt í boði. „Bæði er hægt að vera með nema á spöðunum svo fuglarnir sjái þá í myrkri eða nema sem verða varir við ferðir fuglanna og hægja þá á spöðunum,“ útskýrir Kristinn Haukur. „Aðalmálið er þó að reyna að velja staði þar sem minnstar líkur eru á árekstrum,“ bætir hann við.