Kínverski tæknirisinn Huawei hefur stefnt bandarískum stjórnvöldum með það að markmiði að hnekkja banni, sem kemur í veg fyrir að opinberar stofnanir í Bandaríkjunum kaupi og noti vörur og þjónustu frá fyrirtækinu. Breska ríkisútvarpið greinir frá, en Guo Ping, stjórnarformaður fyrirtækisins, greindi frá þessu í höfuðstöðvum fyrirtæksins í Kína. 

Sjá einnig: Kínverskur risi í klandri

Bandaríkjaforseti undirritaði á síðasta ári lög um bannið, sem var rökstutt á þeim forsendum að grunur væri um að notkun tækja frá Huawei fæli í sér ógn við öryggi Bandaríkjanna, en fyrirtækið er sakað um njósnir fyrir kínversk stjórnvöld.

Bæði Huawei og yfirvöld í Kína hafa ítrekað neitað því að Huawei stundi njósnir eða aðra ólöglega starfsemi. „Bannið er ekki einungis ólögmætt heldur setur það Huawei skorður í að taka þátt í sanngjarnri samkeppni sem skaðar á endanum bandaríska neytendur,“ er haft eftir Guo Ping, forstjóra Huawei.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna ákærði Huawei og fjármálastjórann Meng Wanzhou í byrjun febrúar. Fyrirtækið sjálft er sakað um bankasvindl, tækniþjófnað og að hindra framgang réttvísinnar. Ákæran tengist sum sé ekki meintum njósnum um starfsemi hins opinbera né almenna borgara. 

Angar Huawei teygja sig um allan heim. Það starfrækir rannsóknarstöðvar í nærri tuttugu ríkjum og er í samstarfi við allflest stærstu fjarskiptafyrirtæki heims.

Starfsemi fyrirtækisins má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi framleiðir það búnað fyrir fjarskiptanet, í öðru lagi ýmsan skrifstofubúnað fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir og í þriðja lagi framleiðir Huawei neytendatækni. Símar fyrirtækisins njóta þó nokkurra vinsælda. Má til að mynda kaupa þá í Elko, hjá Símanum og Vodafone.