Maður þarf í sjálfu sér enga ástæðu til þess að bjóða sig ekki fram. En annað gildir um að bjóða sig fram,“ segir Helgi, sem er nú í einangrun með COVID-19. „Þetta snertir alla fleti lífsins í fjögur ár, fjölskyldu, vini, áhugamál og fleira. Á þessum tímapunkti langar mig að gera aðra hluti.“ Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Helgi tekur slíka ákvörðun en hann gaf ekki kost á sér fyrir kosningarnar árið 2016. Hann var einn af fyrstu þingmönnum Pírata árið 2013.

„Ef maður trúir á lýðræðið þá felur það í sér að allir þurfa að standa eina vakt. Nú er ég að klára aðra vaktina mína þó sú fyrri hafi verið aðeins eitt ár,“ segir Smári sem var kjörinn á þing árið 2016 og er einn af stofnendum og hugmyndasmiðum flokksins. „Ég hef ákveðin áhugamál, þekkingu og færni sem mig langar til að beita annars staðar.“

Þingseta ekki holl til lengdar

Aðalfundur verður hjá Pírötum um helgina. Segja þeir nóg af hæfileikafólki í flokknum og mikilvægt að aðrir fái að komast að. Reynsla og þekking þeirra geti nýst við að undirbúa frambjóðendur fyrir þingstörfin.

„Hugmyndin um atvinnupólitíkusa finnst mér afar óheillandi og lýðræðið geldur fyrir það að fólk sé of lengi á þingi,“ segir Smári. „Einstaklingur sem hefur setið í fimm, sex eða sjö kjörtímabil kemur ekki með neitt ferskt að borðinu.“

Helgi bendir á eðli Pírata sem hreyfingar og að áherslan sé á hinn almenna flokksmann. Ekki aðeins hina kjörnu fulltrúa eins og vilji oft verða hjá öðrum flokkum. „Til að taka fullan þátt í innra starfi flokksins þarf tíma og þingmenn hafa hann einfaldlega ekki. Ég sé fyrir mér að geta tekið meiri þátt í starfi flokksins og þá með þingreynsluna á bakinu.“

Innra starf í Pírötum borgar hins vegar ekki reikningana en hvorugur þeirra er smeykur við að fara aftur út í atvinnulífið. Smári segist geta hugsað sér að vinna að umhverfismálum, tækni- eða öryggismálum og Helgi nefnir tækni- og upplýsingamál. Ekkert er þó endanlega ákveðið.

Báðir segja þeir tímann á Alþingi hafa verið lærdómsríkan og gagnlegan. Fólk sem komi þar inn verði að stíga langt út fyrir þægindarammann og kynna sér hluti sem það annars hefði ekki gert. Einnig að átök séu eðli vinnustaðarins og því sé það ekki mjög hollt starfa þar til lengdar.

Átökin sýnilegri en ekki algengari en í öðrum flokkum

Á síðasta ári var fjallað um átök innan Pírata þegar Birgitta Jónsdóttir sóttist eftir sæti í trúnaðarráði. Helgi segir að þessar deilur séu búnar og í dag sé mikið samlyndi bæði í innra starfinu og þingflokknum. „Ástæðan fyrir því að ágreiningur innan okkar raða verður svo augljós er af því að við erum ófær um að halda slíku leyndu,“ segir hann. „Það eru innanflokksátök í öllum flokkum en aðrir flokkar eru mjög uppteknir af því hvernig hlutirnir líta út utan frá. Okkur finnst að það eigi ekki að draga úr neinu og ef hlutirnir eiga að líta vel út verða þeir að vera í góðu.“

Átök við aðra flokka, sérstaklega Sjálfstæðismenn, hafa einnig verið í deiglu fjölmiðla og málin oft mjög persónuleg. „Ég vissi það þegar ég byrjaði á þingi að þessi vinna gæti tortímt mannorði mínu og ég var alveg til í það,“ segir Helgi og brosir. „Það skiptir kannski ekki öllu máli hvað gerist, heldur hvernig þú bregst við. Maður þarf að hafa þykkan skráp og geta leitt hjá sér það sem skiptir ekki máli.“

Þessu tengt víkur talinu að ljósmynd af Smára munda byssu sem dreift var víða um samfélagsmiðla og því haldið, oft nafnlaust, fram að hann væri byssuóður. „Enginn spurði mig hver sagan á bak við þetta væri heldur gerði fólk ráð fyrir því sem það vildi,“ segir Smári og rekur þessa sögu. „Árið 2009 var ég að vinna sjálfboðastörf í Afganistan við að byggja upp fjarskiptanet og þvíumlíkt. Við höfðum ekki fjármagn í öryggisgæslu og fengum því lágmarksfræðslu um skotvopn í gegnum vinskap, lærðum hvernig skotvopn virkuðu til þess að við gætum brugðist við ef það kæmi upp ástand.“

Segir hann að þessi rógur fái ekkert á hann í dag en annað gildir um Helga. „Þetta pirrar mig meira en Smára sjálfan. Smári var að gefa tíma sinn til að byggja upp innviði í stríðshrjáðu landi og þurfti að læra að verja sig fyrir árásum Talíbana. Svo dirfðist fólk að kalla hann Talíbana fyrir vikið,“ segir Helgi. „Þetta er einmitt fólkið sem er sjálft hræddast við hryðjuverkamennina og ætti að kalla Smára hetju.“

Smári segir smjörklípuaðferðir og beitingu upplýsingaóreiðu mikið notaða. „Tökum sem dæmi mál Eyþórs Arnalds núna. Hann virðist hafa fengið að gjöf ígildi hundraða milljóna og kemst einhvern veginn hjá því að svara einföldum og eðlilegum spurningum um það með því að beina árásum að Dóru Björt,“ segir hann.

Hugarfarsbreyting gagnvart neyslu Pírötum að þakka

Aðspurður um hverju hann sé stoltastur af á þingferlinum segir Smári vera að „taka leikföngin af“ flokkum. Það er að koma í gegn stefnumálum sem þeir hafi lofað í áratugi og aflað fylgis en ekki staðið við þau, jafnvel þó þau séu óumdeild. Nefnir hann sem dæmi virðisaukaskattsbreytingu á tíðavörum sem var til dæmis á loforðaskrá Vinstri grænna.

Þá harmar hann öll þau vannýttu tækifæri sem skapast hafa. „Pólitíkin er þannig upp sett að meirihlutinn þarf að fá að eiga heiðurinn af öllu og það skiptir máli hvaðan góðar hugmyndir koma. Þess vegna hefur mörgum þeirra verið hafnað einfaldlega af því að þær voru ekki að frumkvæði meirihlutans. Það stingur mig og ég verð reiður.“

Eitt slíkt mál er afglæpavæðing fíkniefna sem hafnað var á vordögum og meira að segja meðflutningsmenn úr stjórnarmeirihlutanum sneru baki við frumvarpinu. Helgi nefnir þó hugarfarsbreytinguna gagnvart neyslu sem það sem Píratar geti verið stoltastir af hingað til.

„Árið 2013 var mjög róttæk hugmynd að afglæpavæða vímuefni. Í dag er afglæpavæðing meginstraumssjónarmið og íhaldssamari stjórnarflokkarnir sverja af sér andstöðu við hana,“ segir Helgi. „Þetta er Pírötum að þakka og einn af stóru pólitísku langtímasigrunum, þó enn eigi eftir að lögfesta málið.“

Segja þeir flokkinn hafa breytt viðhorfum annarra í fleiri málum í gegnum tíðina, þó enn eigi þeir eftir að komast í ríkisstjórn. Snemma árs 2016 mældist flokkurinn í rúmlega 40 prósentum, langstærstur á landinu, en endaði með 14,5 prósent upp úr kjörkössunum. Smári segir það hafa verið algerlega fyrirséð. „Þetta var ekki raunstuðningur heldur mótmælafylgi. Það kom ákveðinn tímapunktur að trú almennings á stjórnmálunum var það lítil að fólk nefndi í könnunum þann kost sem því fannst minnst ógeðslegur,“ segir hann. „Ég er enn þá á þeirri skoðun að Píratar séu minnst ógeðslegi flokkurinn.“