Evrópusambandið hefur ákveðið að draga til baka styrki til sex bæja í Póllandi, sem höfðu gefið út opinberar yfirlýsingar um að þeir væru LGBT-frísvæði, það er svæði sem væru laus við samkynhneigða og kynleiðrétta einstaklinga.

Styrkirnir voru vegna fyrirætlana um vinabæjasamskipti pólsku bæjanna við aðra evrópska bæi. Helena Dalli, framkvæmdastjóri jafnréttismála hjá Evrópusambandinu, segir að grunngildi og réttindi verði að virða og því hefði ákvörðunin verði tekin.

Alþjóðlega mannréttindavaktin (International Observatory of Human Rights) upplýsti í mars að þriðjungur pólskra bæja hefði skilgreint sig sem LGBT-frísvæði síðan 2019.

Í byrjun þessa mánaðar ákvað borgin Nieuwegein í Hollandi að slíta vinabæjartengslum sínum við pólsku borgina Pulawy, því að stjórnvöld þar ákváðu að lýsa því yfir að borgin væri LGBT-frísvæði.