Hæstiréttur mun fjalla um rétt erfingja til að krefjast opinberra skipta, komi til nýrrar sambúðar þess sem situr í óskiptu búi. Ákvörðun þessa efnis var birt á vef Hæstaréttar í gær.

Málið varðar kröfu afkomanda um að dánarbú látinnar móður verði tekið til opinberra skipta, en eftirlifandi maki hennar fékk leyfi til setu í óskiptu búi eftir andlát hennar árið 2016. Í sameiginlegri, gagnkvæmri erfðaskrá hjónanna er kveðið á um að heimild langlífari maka til að sitja í óskiptu búi falli niður gangi hann í hjónaband að nýju eða hefji sambúð.

Ekkillinn gengst við því í héraði að hafa tekið upp samband við aðra konu og að hann hafi sama lögheimili og hún. Af þeim sökum var fallist á kröfu um skipti í héraði.

Þeirri niðurstöðu var snúið við í Landsrétti þar sem leyfi sýslumanns til setu í óskiptu búi hefðu engar skorður verið reistar við því að leyfishafi hæfi sambúð að nýju. Þá taki skorður erfðalaga við setu í óskiptu búi einungis til hjúskapar en ekki sambúðar.

Afkomandi hinnar látnu byggði á því í beiðni sinni til Hæstaréttar að með niðurstöðu Landsréttar væri vilji arfleiðanda samkvæmt erfðaskrá að öllu leyti virtur að vettugi, auk þess sem hún færi í bága við ákvæði erfðalaga.

Hæstiréttur telur að dómur um málið geti haft fordæmisgildi um heimildir erfingja til að krefjast opinberra skipta og féllst á að taka málið til meðferðar.