Birta Flókadóttir og frændi hennar, Sigurður Ingi Bjarnason, fóru í allsherjar björgunaraðgerðir um helgina eftir að hryssan Esja féll ofan í skurð. Þau nutu aðstoðar Didda, bónda á Bjarnastöðum, sem kom á dráttarvél til að lyfta hestinum.

Mikið lán að finna hestinn

Mæðginin voru stödd við Árveg í Grímsnesi þegar Dagur Spói, ellefu ára sonur Birtu, fann hryssuna. Hann var þá í göngutúr ásamt frænkum sínum.

„Það mátti litlu muna að ég fengi hana á mig þarna í fyrri tilrauninni.“

„Ég er með reiðhesta í girðingu við Árveg í Grímsnesi þar sem ég er að byggja sumarhús og það var afar mikið lán að Dagur Spói fór ásamt frænkum sínum Salvöru og Vöku að heilsa upp á hestana,“ segir Birta í samtali við Fréttablaðið. Sjálf hefur hún verið í hestamennsku frá því að hún var barn í sveit og eignaðist hún fyrsta hestinn sinn þegar hún var 10 ára. Hún segir hestamennskuna yndislegt áhugamál og að fátt sé betra en útreiðatúr í góðu veðri.

Frá björgunaraðgerðum. Litlu munaði að Birta fengi hryssuna ofan á sig í skurðinum.
Mynd: Dagur Spói Birtu- og Atlason

Sonur hennar er því á svipuðum aldri og Birta var þegar hún byrjaði í hestamennskunni og er þetta sannarlega ævintýri sem hann mun seint gleyma.

„Allt er gott sem endar vel,“ segir Birta. Aðspurð hvernig hryssan komst í skurðinn segir hún sennilegt að Esja hafi verið að leita að girnilegu grasi.

„Hún hefur sennilega freistast til að teygja sig í hátt girnilegt gras sem vex upp úr skurðinum og sokkið á kaf.“

Dagur Spói og Esja, daginn eftir.
Mynd: María Kristín Jónsdóttir

Kom um hæl með dráttarvél

Eftir að Dagur, Salvör og Vaka gerðu öllum viðvart var strax hafist handa við björgunaraðgerðir.

„Sigurður Ingi frændi minn, sem er með bústað í nágrenninu, kom strax á staðinn með stroffur og Diddi á Bjarnastöðum kom um hæl á dráttavél að hjálpa okkur.“

Birta segist alls ekki hafa litist á blikuna að sjá hryssuna á bólakafi. „Hún var orðin köld og titraði og var sennilega búin að vera þarna í þónokkra klukkutíma. Svo er alltaf einhver hætta á því að eitthvað gerist í ferlinu sem myndi slasa hana.“

Esja fær sér vatn að drekka eftir björgunaraðgerðirnar. Hjá henni eru mæðgin Dagur Spói og Birta.
Mynd: María Kristín Jónsdóttir

Afslöppuð og glöð daginn eftir

Hryssan var þó yfirveguð og gekk samstarfið vel. „Ég var alltaf bjartsýn. En það mátti samt litlu muna að ég fengi hana á mig þarna í fyrri tilrauninni.“

Birta náði sem betur fer að koma stroffunum undir kviðinn á Esju þó að drullan í skurðinum hafi verið þykk og hryssan föst í miklu dýpi. Í tveimur tilraunum var hægt að koma henni upp heilli á húfi.

„Til allrar hamingju var hún strax mjög spræk þegar hún komst á land og þó hún væri aðeins eftir sig, þá var hún farin að bíta stuttu síðar. Daginn eftir var hún bara afslöppuð og glöð.“

Birta var útötuð í drullu eftir aðgerðirnar. Daginn áður hafði hún skorið sig á putta og þurfti að fara á sjúkrahúsið á Selfossi að láta sauma spor. „Fingurinn mátti ekki blotna og þess vegna var ég með bláa gúmmihanskann á vinstri hendinni.“
Mynd: María Kristín Jónsdóttir