Salah Abdeslam var í dag dag fundinn sekur um bæði manndráp og hryðjuverk fyrir aðild sína að hryðjuverkaárásinni í París í nóvember árið 2015.

Fram kemur á vef BBC að Abdeslam hafi verið lykilmaður í árásinni en 130 létust og hundruð særðust í sprengju- og skotárásum á börum, veitingastöðum, þjóðarleikvangi og Bataclan tónlistarhöllinni.

19 af þeim 20 sem voru ákærðir vegna árásarinnar voru fundnir sekir fyrir aðild sína. Refsing verður tilkynnt síðar en saksóknari hefur óskað eftir því að Abdeslam verði dæmdur til lífstíðarfangelsis sem er afar sjaldgæft.

Á myndinni eru lögmenn Abdeslam, þau Olivia Ronen og Martin Vettes.
Fréttablaðið/EPA

Réttarhöldin eru ein þau stærstu sem haldin hafa verið í Frakklandi en þau hófust í september. Á BBC segir að í níu mánuði hafi fórnarlömb, blaðamenn og fjölskyldur þeirra látnu hist fyrir utan réttarsalinn sem var sérstaklega byggður til að setja það saman hvað gerðist þennan dag. Árásin er sú mannskæðasta í Frakklandi frá seinni heimsstyrjöld.

Fréttin hefur verið leiðrétt, fyrst stóð að dómar yrðu tilkynntir síðar, en átt var við refsingu. Leiðrétt 21:32 klukkan 29.6.2022.