Áður en eld­gos hófst í Geldinga­dölum við Fagra­dals­fjall þann 19. mars 2021 var Stóri-Hrútur flestum lítt kunnur. Samt var hann hæsta fjallið (352 m) á sunnan­verðum Reykja­nes­skaga og rómað út­sýnis­fjall.

Fyrstu vikur gossins sást best yfir gos­stöðvarnar að vestan­verðu frá Fagra­dals­fjalli en þegar gígarnir tóku að opnast í austur var gengið þeim megin upp á hrygg sem gárungarnir voru fljótir að nefna Gón­hól. Ný­lega lokaðist sú göngu­leið vegna hraun­streymis og við það fékk Stóri-Hrútur lang­þráða at­hygli.

Sú at­hygli var verð­skulduð, enda fjallið ekki að­eins það hæsta á svæðinu heldur jafn­framt það til­komu­mesta. Samt vantar Stóra-Hrút hornin en slíkt sauð­fé kallast koll­ótt, sem er vel þekkt, en ekki staðal­mynd hrútsins. Af á­völum Hrútnum sést vel í gíginn með glóandi hraunelfur í for­grunni sem rennur ofan í Merar­dali og Nátt­haga.

Göngu­leiðin á Stóra-Hrút er ekki jafn greið en síst til­komu­minni en þær sem liggja í gegnum Nátt­haga­krika á Gón­hól og Fagra­dals­fjall.

Á tindi Stóra-Hrúts er óhefðbundið að slá upp tjaldi en útsýnið er óviðjafnanlegt.
Mynd/TG

Aðal­lega eru tvær leiðir í boði, eftir Merar­dölum eða norður Nátt­haga. Sú síðar­nefnda er meira fyrir augað en breytist stöðugt vegna fram­rásar hraunins. Bílum er lagt skammt frá Ís­ólfs­skála og síðan gengið eftir sléttum Nátt­haga að hraun­tungum sem stefna óð­fluga að Suður­strandar­vegi.

Til að forðast gasmengun er best að halda sig í fjalls­hlíðum og ekki leggja í gönguna séu vind­áttir norð­lægar. Í Nátt­haga má virða fyrir sér hraunið í ná­vígi og sjá hvernig það rennur niður hlíðarnar við Bratt­háls. Lagt er á brattann austan megin hraun­tungunnar. Ofar minnkar hallinn og er hlíðum fylgt á­fram að skarði við suður­enda Stóra-Hrúts.

Þangað liggur einnig göngu­leiðin austan úr Merar­dölum. Hún er greið­færari en sú í Nátt­haga og hentar því á­gæt­lega fyrir fjalla­hjól. Úr skarðinu liggur greini­legur stígur upp á há­tind Stóra-Hrúts. Þar blasir gígurinn við og hraun­breiðurnar í kring en einnig Reykja­vík, Keilir, Trölla­dyngja og suður­ströndin með Eld­ey.

:Hlíðar Stóra-Hrúts eru brattar og gaman að horfa úr þeim ofan á glóandi hraunelfur.
Mynd/Una Sighvatsdóttir

Á leiðinni heim er til­valið að þræða á­valan Langa­hrygg milli Nátt­haga og Merar­dala og virða fyrir sér hraunið í Nátt­haga úr fjar­lægð. Ganga á Stóra-Hrút er enn ó­stikuð og tekur hálfan dag báðar leiðir. Við mælum þó með góðri pásu á höfði þessa vina­lega Hrúts, sem þrátt fyrir lætin virðist kæra sig koll­óttan og lumar á út­sýni sem ekki verður metið til fjár.