Útflutningur Bretlands til Evrópusambandslanda féll um rúmlega 40 prósent í janúar og innflutningur um tæp 29 prósent. En janúar var fyrsti mánuðurinn eftir að aðlögunartímabilinu lauk vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þetta er hæsta fall í inn- og útflutningi Bretlands í áratugi. Alls féll þjóðarframleiðslan um 2,9 prósent samkvæmt hagstofu Bretlands.

Hluti af ástæðunni fyrir minnkandi vöruskiptum er að heildsalar beggja vegna Ermarsundsins höfðu birgt sig upp af varningi fyrir áramót. Þetta gildir þó ekki fyrir ferskvöru eins og fisk fluttan frá Bretlandi og grænmeti flutt frá Evrópu. Önnur stór breyta er truflanir á landamærunum og mikið skjalafargan sem hafa haft mikil áhrif á vöruskipti, ekki síst með ferskvöru.

Þó að minnkun þjóðarframleiðslunnar í janúar sé mikil í sögulegu samhengi er hún minni en bresk stjórnvöld áttu von á. Búist var við að hún myndi falla um allt að 4,9 prósent. Talið er að faraldurinn skipti þar mestu og þau högg sem breskum efnahag hafa verið greidd í faraldrinum. Í apríl, þegar fyrsta bylgja faraldursins gekk yfir, féll þjóðarframleiðslan um 20 prósent.

Stjórnvöld búast við að vöruskipti við Evrópusambandið aukist aftur þegar uppsafnaðar birgðir dvína og fyrirtæki aðlagist breyttu kerfi á landamærunum. Talsmenn atvinnulífsins hafa hins vegar áhyggjur af því að vandinn verði viðvarandi. Bæði vegna lengri afhendingartíma og aukins kostnaðar. Þá er tollgæsla á landamærunum ekki enn komin í það horf sem hún á að vera samkvæmt lögum og á þessu ári verður eftirlit og flækjustigið aukið.