Aðeins 140 pysjur hafa verið skráðar á vefinn lundi.is. Af þeim hafa 78 verið vigtaðar og er meðalþyngd 241 gramm.

Samanborið við sama tímabil í fyrra hefur verið hrun í lundapysjum, en á svipuðum tíma árið 2021 var búið að skrá og vigta rúmlega fimm þúsund pysjur og var meðalþyngd um 300 grömm. Vert er að nefna að enn á eftir að fanga fleiri pysjur og er búist við að um tvö til þrjú þúsund pysjur verði skráðar það sem eftir er af tímabilinu.

Árlega koma saman gestir og íbúar í Heimaey til að ná pysjum sem hafa villst af leið og kasta þeim út í sjó. Dr. Erpur Snær Hansen hjá Náttúrustofnun Suðurlands segir pysjurnar í ár vera léttar, aðeins um 250 grömm, og eru þá lífslíkur komnar niður í um 20 prósent.

Vert er að nefna að enn á eftir að fanga fleiri pysjur og er búist við að um tvö til þrjú þúsund pysjur verði skráðar það sem eftir er af tímabilinu.
Erpur Snær Hansen er helsti lundapysju sérfræðingur Íslands en hann hefur fylgst með stofninum í Vestmannaeyjum í mörg ár.
Mynd/Aðsend

Samspil margra þátta

Varptími lunda hefur verið breytilegur síðustu 20 ár og voru síðustu tvö ár nokkuð góð. Erpur telur að lækkun í kísilmagni í sjónum og þar með seinkun í vistkerfinu hafi áhrif á fæðu lundapysja.

Lundar og aðrir sjófuglar reiða sig á sandsílaseiði til að koma upp ungum. Nú þegar tiltölulega fá seiði eru á ferðinni standa pysjur frammi fyrir hungursneyð.

„Nú held ég að við séum að flökta í kringum einhvern kísilþröskuld,“ segir Erpur.

Tölur frá árinu 2021.
Mynd: Pysjueftirlitið

Mun færri seiði sunnanlands

Valur Bogason, sjávarvistfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, er nýkominn úr leiðangri að skoða sandsíli á fjórum svæðum frá Ingólfshöfða að Breiðafirði.

„Ástandið í Faxaflóa og Breiðafirði var gott eins og undanfarin 3 ár og þar var talsvert af seiðum ásamt eldra síli. Fyrir sunnan land var ástandið nokkuð gott hjá eldra sílinu en það fékkst mjög lítið af seiðum, mun minna en í Faxaflóa og Breiðafirði. Þau sandsílaseiði sem við fengum á Suðurlandi voru mun minni en annars staðar sem segir manni það að þau séu sennilega úr klaki sem var á síðari hluta klaktímans,“ segir Valur.

Þessi munur á stærð og magni seiða fyrir vestan- og sunnan land bendi til þess að klakið hafi gengið verr fyrir sunnan land. Hann segir að seiði þurfi að vera ákveðið stór á haustin til að lifa af veturinn þegar þau fara í dvala.

Besta árið frá upphafi varðandi fjölda sandsíla var í fyrra. Tölurnar hafi líka verið góðar í ár en talsvert minna er af seiðum. „Fyrir sjófuglinn skiptir seiðið auðvitað mestu máli,“ segir Valur.

Valur Bogason, sjávarvistfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, skoðaði sandsíli 19. ágúst til 29. ágúst.
Fréttablaðið/Anton Brink